Troðfull flugstöð af verkfalls-farþegum - myndir
Mörg hundruð manns voru í biðröð fyrir framan söluskrifstofu Icelandair í Flugstöð Leifs Eiríkssonar um hádegisbilið í dag. Farþegar sem áttu að fara til áfangastaða í Evrópu voru í þessum röðum til að fá upplýsingar og úrlausn sinna mála vegna verkfalls flugvirkja sem hófst kl. 6 í morgun.
„Við vorum komin út að hliði og á leið inni í vél og áhöfnin líka þegar það var tilkynnt um seinkun til kl. 9. Ég sit hérna núna (í hádeginu) og er greinilega ekki að fara neitt. Ég var með yfirvigt sem ég var búin að greiða fyrir og það hentar mér illa að fara til Köben og þaðan til Zurich, míns áfangastaðar. Ég vona bara að ég komist þegar líður á vikuna,“ sagði eldri kona við fréttamann VF rétt fyrir hádegi.
Starfsmenn Isavia voru á þönum um alla stöð og gáfu farþegum bæði þær upplýsingar sem hægt var að veita og vatn að drekka. „Þetta er rétt að byrja held ég en þú sérð röðina. Vonandi rætist eitthvað úr þessu en staðan er ekki góð. Við erum bara að gera okkar besta til að liðka til. Þetta eru okkar farþegar líka,“ sagði Gunnhildur Vilbergsdóttir hjá Isavia.
Starfsmenn söluskrifstofu Icelandair reyna að leysa úr málum farþega en þjónustan gekk mjög seint og lítið gekk á röðina. Margir farþegar hafa kvartað og lýst skoðun sinni á ástandinu á samfélagsmiðlum. Búið er að aflýsa fjölda ferða sem áttu að fara í morgun en ljóst er að fleiri ferðum verður aflýst í dag.
Gunnhildur Vilbergsdóttir hjá Isavia aðstoðar farþegar í flugstöðinni.
Flugvélar frá Icelandair eru á stæði fyrir framan flugskýli félagsins en þar eru núna engir flugvirkjar að störfum.