Trillukarlar styrkja björgunarsveitir á Suðurnesjum
Smábátafélagið Reykjanes ákvað á aðalfundi sínum nýverið að styrkja fimm björgunarsveitir á Suðurnesjum um hálfa milljón króna.
Það þótti vel við hæfi að afhenda styrkina á landsæfingu slysavarnfélaganna sem haldin var á Suðurnesjum á dögunum. Við það tækifæri ávarpaði Halldór Ármannsson formaður Reykjaness viðstadda. Hann lét þess getið að þar sem fjárhagsleg staða félagsins væri góð hefði verið ákveðið að styrkja gott málefni. Slysavarnafélögin voru það fyrsta sem kom í hug manna og tekjur félagsins á einu ári væri ígildi styrkupphæðarinnar.
Það kom í hlut Þorláks Halldórssonar gjaldkera Reykjaness að afhenda formönnum félaganna styrkina.
Björgunarsveitirnar þökkuðu höfðinglegt framlag og þann góða hug sem trillukarlar á Reykjanesi sýndu starfi þeirra. Styrkurinn væri óvænt framlag á erfiðum tímum sem mundi nýtast vel til eflingu slysavarna og björgunarstarfa.
Á myndinni er formaður og gjaldkeri Reykjaness ásamt formönnum Björgunarsveitar Suðurnesja, Sigurvonar í Sandgerði, Þorbjarnar í Grindavík, Skyggni í Vogum og Ægi í Garði.