Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Travolta í Keflavík
Sunnudagur 18. október 2009 kl. 23:19

Travolta í Keflavík


Goðsögnin John Travolta mun dvelja á Íslandi þar til síðdegis á morgun. Flugvél hans lenti á Keflavíkurflugvelli um kl. 21 í kvöld og að öllum líkindum var Travolta sjálfur við stýrið, enda annálaður flugáhugamaður. Vélin sem kappinn kom á er heldur ekkert slor, sannkallaður safngripur, Boeing 707, sú eina sinnar tegundar sem er í einkaeigu.


Það voru eðalvagnar sem biðu John Travolta og fylgdarliðs á Keflavíkurflugvelli í kvöld. Vélin er staðsett á athafnasvæði Suðurflugs nærri gömlu flugstöðinni. Þar á bæ verjast menn allra frétta af kappanum, sem í kvöld er eins og hver annar viðskiptavinur, enda mikið annríki á flughlaðinu í kvöld og fjölmargar flugvélar að millilenda til að taka eldsneyti eða til næturdvalar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Vísir.is hefur þær heimildir að leikarinn hafi sjálfur flogið vélinni og að hann verði á hóteli í Reykjavík í nótt. Sömu heimildir benda til þess að vélin fari aftur síðdegis á morgun.


Þotan hans Travolta heitir Jett Clipper Ella, í höfuðið á börnum leikarans. Þotan er sú eina sinnar tegundar sem er í einkaeigu, eins og áður segir, en Travolta býr við flugvöll og getur lagt vélinni fyrir framan húsið sitt.


Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem John Travolta kemur á þessari flugvél til Íslands. Myndatökumaður Víkurfrétta vaktaði þá þotuna í margar klukkustundir við Flugstöð Leifs Eiríkssonar þegar Travolta kom þangað fyrir mörgum árum á hnattflugi sínu með vélina í samstarfi við ástralska flugfélagið QANTAS. Vél Travolta er einmitt merkt því flugfélagi. Vaktin við Leifsstöð endaði með því að Travolta fór aldrei inni í flugstöðina, heldur tók aðeins eldsneyti á flughlaðinu og veifaði síðan vel og lengi til myndatökumanns Víkurfrétta. Þær myndir liggja nú í myndasafni Stöðvar 2 og aldrei að vita nema þær verði dregnar fram í dagsljósið á morgun.

Myndir: Boeing 707 í eigu John Travolta á Keflavíkurflugvelli nú áðan. Travolta verður hér á landi þar til síðdegis á morgun. Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson