Travolta í Keflavík
Goðsögnin John Travolta mun dvelja á Íslandi þar til síðdegis á morgun. Flugvél hans lenti á Keflavíkurflugvelli um kl. 21 í kvöld og að öllum líkindum var Travolta sjálfur við stýrið, enda annálaður flugáhugamaður. Vélin sem kappinn kom á er heldur ekkert slor, sannkallaður safngripur, Boeing 707, sú eina sinnar tegundar sem er í einkaeigu.
Það voru eðalvagnar sem biðu John Travolta og fylgdarliðs á Keflavíkurflugvelli í kvöld. Vélin er staðsett á athafnasvæði Suðurflugs nærri gömlu flugstöðinni. Þar á bæ verjast menn allra frétta af kappanum, sem í kvöld er eins og hver annar viðskiptavinur, enda mikið annríki á flughlaðinu í kvöld og fjölmargar flugvélar að millilenda til að taka eldsneyti eða til næturdvalar.
Vísir.is hefur þær heimildir að leikarinn hafi sjálfur flogið vélinni og að hann verði á hóteli í Reykjavík í nótt. Sömu heimildir benda til þess að vélin fari aftur síðdegis á morgun.
Þotan hans Travolta heitir Jett Clipper Ella, í höfuðið á börnum leikarans. Þotan er sú eina sinnar tegundar sem er í einkaeigu, eins og áður segir, en Travolta býr við flugvöll og getur lagt vélinni fyrir framan húsið sitt.
Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem John Travolta kemur á þessari flugvél til Íslands. Myndatökumaður Víkurfrétta vaktaði þá þotuna í margar klukkustundir við Flugstöð Leifs Eiríkssonar þegar Travolta kom þangað fyrir mörgum árum á hnattflugi sínu með vélina í samstarfi við ástralska flugfélagið QANTAS. Vél Travolta er einmitt merkt því flugfélagi. Vaktin við Leifsstöð endaði með því að Travolta fór aldrei inni í flugstöðina, heldur tók aðeins eldsneyti á flughlaðinu og veifaði síðan vel og lengi til myndatökumanns Víkurfrétta. Þær myndir liggja nú í myndasafni Stöðvar 2 og aldrei að vita nema þær verði dregnar fram í dagsljósið á morgun.
Myndir: Boeing 707 í eigu John Travolta á Keflavíkurflugvelli nú áðan. Travolta verður hér á landi þar til síðdegis á morgun. Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson