Trampólín og þakjárn fuku í Grindavík
Björgunarsveitarmenn úr Björgunarsveitinni Þorbirni hafa verið á ferðinni síðan snemma í morgun að sinna útköllum vegna óveðurs.
Fyrsta útkall morgunsins var vegna þess að þakjárn var að losna af íbúðarhúsi í bænum. Þá voru björgunarsveitarmenn kallaðir út til að aðstoða við að festa niður trampólín sem var að fjúka í bænum.
Á tíunda tímanum var síðan þakjárn að losna af húsi í gamla bænum í Grindavík.
Núna kl. 09 voru ASA 24 m/s á veðurstöðinni í Grindavík og hviður fóru í 34 metra.
Í samtali við Víkurfréttir í morgun sagði Bogi Adolfsson, formaður Björgunarsveitarinnar Þorbjörns, að miðað við veðurhæð í bænum hafi verið mun minna að gera hjá björgunarsveitinni, en búast hefði mátt við.
Meðfylgjandi myndir voru teknar í Grindavík í morgun. VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson
Nóg af reipi og góður stigi er eitthvað sem allar björgunarsveitir hafa með sér í óveðursútkall.
Það blés hraustlega á Grindvíkinga snemma í morgun.
Þakjárn losnaði í gamla bænum í Grindavík og björgunarsveitin var sett í málið.