Trampólín eru ekki lyfseðilsskyld
– óhætt að taka þau inn hvenær sem er
Lögreglumenn á Suðurnesjum þurftu í fimm útköll síðustu nótt þar sem trampólín komu við sögu. Á fésbókarsíðu lögreglustjórans á Suðurnesjum segir að lögreglumenn á næturvaktinni hafi lent í töluverðum vandræðum með trampólínin.
Öðrum hvelli í veðrinu er spáð í fyrramálið og segir í færslu lögreglunnar að fólk sé hvatt til að taka mark á viðvörunum og jafnframt að virða eigur nágranna því trampólínið „þitt“ fýkur ekki bara í þínum garði. Trampólín geta jafnframt valdið miklum skemmdum og verið lífshættuleg þegar þau koma fljúgandi á mikilli ferð.
Að lokum skellir lögreglan fram léttum húmor sem á vel við:
„Trampólín eru ekki lyfseðilsskyld og því ætti að vera óhætt að taka þau inn hvenær sem er og kannski sérstaklega ef veður er vont. Aukaverkanir af inntöku eru óverulegar.“