Töskuþjófur handsamaður
Tilkynnt var um þjófnað á ferðatösku til lögreglunnar á Suðurnesjum um helgina. Viðkomandi hafði skilið eftir ferðatösku bak fyrir bifreið sína fyrir utan hótel í umdæminu. Þegar eigandinn vitjaði svo töskunnar var hún horfin.
Í upptökum úr eftirlitsmyndavél sást hvar ökumaður annarar bifreiðar kom aðvífandi, gramsaði í töskunni og hafði hana svo á brott með sér.
Lögregla hafði uppi á manninum á höfuðborgarsvæðinu og í viðræðum þeirra viðurkenndi hann að vera með töskuna í bifreið sinni. Honum var gert að skila henni á stundinni og ætlaði hann að verða við því.
Þá tilkynntu erlendir ferðamenn um þjófnað á bakpoka á höfuðborgarsvæðinu. Í honum voru dróni og fleiri munir.