Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Torfþak á nýrri viðbyggingu við Fjölbrautaskólann
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 10. maí 2020 kl. 10:27

Torfþak á nýrri viðbyggingu við Fjölbrautaskólann

JeES arkitektum var falið að koma með tillögu í samstarfi við Verkfræðistofu Suðurnesja að 300 m2 tengigangi og félagsrými í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Var verkefnið boðið út nýlega.

Jón Stefán Einarsson, arkitekt, segir að eftir forskoðun hafi verið ljóst að nálgun verksins þyrfti að vera óhefðbundin þar sem óskað var eftir stálgrindahúsi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Þetta eru skemmtilegustu verkefnin, að fá smá áskorun. Arkitetkúr hússins er hafður einfaldur og einn fókus, að fela ekkert, það sem fer inn er úthugsað og fullnýtt, ekki ósvipuð nálgun og við tókum fyrir í fjölnotahúsi fyrir háskólann í Manitoba. Það er fegurð í slíkum hreinleika, eins og bert stálloft, slípuð, steypt gólfplata og svartmálað stálvirki sem fær að njóta sín umvafið í glerhjúp. Í hönnuninni á byggingunni að utan er annað á dagskrá, þar sem tengigangurinn er staðsettur inni í gráu bílaporti fannst okkur tilvalið að setja torfþak. Það var gert til þess að gefa rýminu smá grænt. Áætlað er að engin slátturvéli þurfti að fara upp á þak, þar sem notast verður við úthagatorf sem aldrei hefur verið meðhöndlað og þolir slíkar aðstæður. Svo í lokin þá er alltaf pínu krydd, inni verða teppi og húsbúnaður í félagsrými með skærum litum til að gefa rýminu poppaðan -karakter sem má ekki vanta hjá ferskasta framhaldskóla landsins,“ sagði Jón Stefán arkiktekt.

Lengi verið draumur að bæta félagsaðstöðu nemenda

Kristján Pétur, skólameistari, segir að það hafi lengi verið draumur að bæta félagsaðstöðu nemenda í skólanum og einnig sé það ánægjulegt að fyrrverandi nemandi hafi hannað bygginguna.

– Hvaða þýðingu hefur þessi viðbygging sem hefur verið auglýst og hvernig líst þér á hana?

Mér líst mjög vel á hana, þetta er glæsileg bygging og verður kærkomin viðbót við félagsaðstöðu nemenda. Hún fellur mjög vel að núverandi húsnæði og tengir álmurnar saman á skemmtilegan hátt. Það er búið að vera draumur okkar lengi að fá aukið rými fyrir vinnu- og félagsrými nemenda en það hefur til þessa verið mjög takmarkað. Nú er þetta loksins að fara af stað, þökk sé þeim fjölmörgu sem hafa stutt við bakið á okkur og lagt þessu lið. Þetta mun gjörbreyta aðstöðu nemenda í skólanum því með þessu skapast aðstaða fyrir nemendur til að setjast niður í frímínútum eða í götum, sinna námi eða bara til að spjalla og slappa af.

Jón Stefán Einarsson, arkitekt hjá JeES arkitektum, hefur séð um að hanna þetta en Jón er fyrrum nemandi skólans. Síðan hefur Verkfræðistofa Suðurnesja séð um verkfræðiþáttinn og kemur til með að halda utan um verkið.

– Og af hverju torfþak?

Þú verður eiginlega að spyrja Jón að því af hverju hann vill hafa torfþak en þegar hann var að útskýra þetta fyrir okkur í bygginganefndinni þá vildi hann að nemendur gætu horft út um glugga á annarri eða þriðju hæð skólans og séð eitthvað annað en bara malbik og steinsteypu. Þarna væri þá komið eitthvað náttúrulegt og mun hlýlegra heldur en bara grá steypa og ég er sammála honum og tel að þetta verði til prýði.