Torfæran: „Þetta er alveg skelfilegt!“
„Þetta er alveg skelfilegt!“ sagði Garðar Gunnarsson, formaður Akstursíþróttafélags Suðurnesja í samtali við Víkurfréttir fyrir stundu. Þá hafði komið í ljós að torfærukeppnin sem halda átti við Stapafell á Reykjanesi hefur verið blásin af.
Það er vegna óraunhæfrar kröfu Tollstjóraembættisins í Reykjavík um 25 milljóna króna tryggingafé fyrir bifreiðar erlendu keppendanna 6 sem hugðust taka þátt í heimsbikarkeppninni.
Garðar vísar allri ábyrgð á hendur embættisins. „Við erum búnir að eyða þvílíkum fjárhæðum í þetta að ógleymdu því sem erlendu keppendurnir hafa sjálfir eytt í að flytja bílana sína hingað og þurfa svo að leggja fram 25 milljónir til að leysa þá út. Þeir hafa ferðast út um allan heim og keppt og aldrei lent í svona. Þessi staða er ömurleg!“
„Ég skil ekki hvað er þarna í gangi því að þegar við fórum út til Noregs að keppa með okkar bíla fyrir stuttu fórum við í Norrænu fram og til baka frá Seyðisfirði og það var ekkert vandamál. En þeir hjá Tollstjóranum í Reykjavík hlustuðu ekki á nein rök í málinu og þegar við spurðum hvort ekki væri hægt að fá undanþágu var svarið nei og ástæðan var: „Af því bara.“ Mér sárnar sem skattborgari að þurfa að fá svona svör frá opinberum stofnunum og vil fá nánari útskýringu,“ sagði Garðar og útilokaði ekki að þeir myndu leggja fram skaðabótakröfu á hendur tollstjóra.
Mótið, sem átti bæði að vera liður í Íslandsmótinu og heimsbikarmótinu, átti að vera allt hið glæsilegasta og var mikill spenningur kominn í áhugafólk sem og aðstandendur.
Garðar segir að þessi uppákoma eigi eftir að hafa varanleg áhrif á stöðu Íslands innan íþróttarinnar. „Við getum alveg afskrifað forystuhlutverk Íslands í torfærunni núna. Við getum ekki verið að halda alþjóðleg mót og bjóða erlendum keppendum hingað ef þetta á að verða svona.“
Ekki náðist í neinn hjá Tollstjóraembættinu.
Myndin: Gunnar Gunnarsson á Trúðnum í keppni í Noregi fyrir stuttu. VF-mynd/JAK