Tónlistarmenn með dólgslæti í flugvél
– voru viðskotaillir og með mótþróa við handtöku
Tveir erlendir tónlistarmenn, sem samkvæmt heimildum Víkurfrétta taka þátt í Iceland Airwaves, voru handteknir í flugstöð Leifs Eiríkssonar á miðvikudag. Þeir höfðu sýnt af sér margháttuð dólgslæti um borð í flugvél, sem var að koma frá Seattle.
Mennirnir höfðu verið verulega ölvaðir í fluginu, áreitt áhöfnina, ekki farið að fyrirmælum flugstjóra og reykt í vélinni. Þegar lögreglumenn komu um borð voru þeir báðir sofandi.
Þeir voru báðir viðskotaillir og með mótþróa, þannig að setja varð þá í handjárn. Að því búnu voru þeir fluttir á lögreglustöð og er málið komið í hefðbundið ferli.