Tónlistarfólk af Suðurnesjum leikur með Ungsveit Sinfóníunnar
Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands, undir stjórn Nathanaël Iselin, leikur Draumórasinfóníu Hectors Berlioz (Symphonie fantastique) næstkomandi sunnudag í Eldborgarsal Hörpu. Með hljómsveitinni leika sex núverandi og fyrrverandi nemendur Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.
Haraldur Árni Haraldsson, skólastjóri Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, segir að þetta sé frábær viðurkenning fyrir skólann en í Ungsveitinni eru gerðar strangar kröfur og þurfa ungmennin að sýna fram á hæfni sína með prufuspili til að vera valin í sveitina. Hljómsveitin í ár er skipuð tæplega 100 hljóðfæraleikurum sem voru valdir úr stórum hópi ungmenna sem komu víðsvegar af landinu.
Hljóðfæraleikararnir sem eru núverandi nemendur við skólann og leika með sveitinni eru þau Bergur Daði Águstsson (trompet), Emilía Sara Ingvadóttir (klarinett), Magnús Már Newman (slagverk) og Rozalia Maria Mietus (fiðla) en þess má geta að Rozalia er handhafi hvatningarverðlauna Íslandsbanka sem eru veitt afburðarnemanda við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar á hverju ári. Auk þeirra fjögurra leika þær Karen Jóna Steinarsdóttir (þverflauta) og Rut Sigurðardóttir (selló) með Ungsveitinni en þær eru fyrrverandi nemendur skólans.
Á vef Sinfóníuhljómsveitar Íslands segir um verkið: „Draumórasinfónía Hectors Berlioz er eitt af lykilverkunum í tónlist rómantíska tímans; ævintýraleg frásögn í tónum af ástarraunum ungs skálds sem hverfur inn í veröld trylltra draumóra með geigvænlegum afleiðingum. Verkið byggir á reynslu tónskáldsins sjálfs af ást og hugarvíli, en hann var 23 ára þegar hann hófst handa við það. Með Draumórasinfóníunni var brotið blað í tónlistarsögunni, því svo nákvæm, sjálfsævisöguleg atburðarás hafði aldrei áður verið rakin í sinfónísku verki af slíkri stærðargráðu.