Tómas „videokóngur“ ofsóttur af fúlum Bretum
Keflvíkingurinn Tómas Marteinsson sem búsettur hefur verið í Bretlandi í mörg ár hefur orðið fyrir ofsóknum vegna Icesave. Þegar fjölskyldan vaknaði á aðfangadagsmorgun kom í ljós að búið var að vinna skemmdarverk á húsi hans og fjölskyldubílnum.
Tómas sem fékk nafnið „vidokóngurinn“ í Keflavík á sínum tíma en hann rak m.a. stærstu myndbandaleiguna á Suðurnesjum og seldi bæjarbúum fyrstu myndbandstækin starfar nú sem fasteignasali og býr í litlu þorpi fyrir utan London. Þegar þau hjónin ætluðu út að versla í jólamatinn sáu þau að búið var að spreyja stórann kross á útidyrahurðina. Einnig var búið að setja nokkra krossa á aðra hliðina á bíl þeirra og skrifað var með stórum stöfum „Pay People back" eða borgið fólkinu aftur.
Hann segist hafa fundið fyrir mikilli reiði fólks í garð Íslendinga úti í Bretlandi. Ekki þó frá sínum nánustu vinum eða þeim sem hafa kynnt sér málið ítarlega. Hann vill að íslenska ríkisstjórnin semji um málið sem allra fyrst. Þetta kemur fram í frétt á visir.is.