Tómas og Bára svöruðu Neyðarkalli björgunarsveitanna
Salan á Neyðarkallinum gekk vel í Reykjanesbæ, samkvæmt upplýsingum frá Björgunarsveitinni Suðurnes. Tekið var vel á móti sölufólki við fjölmennustu verslanir í bænum þar sem Neyðarkallinn var boðinn til sölu.
Salan var sameiginlegt verkefni Björgunarsveitarinnar Suðurnes og kvennasveitarinnar Dagbjargar ásamt Unglingadeildinni Kletti og rennur ágóðinn til styrktar björgunarmálum í Reykjanesbæ.
Óhætt er að segja að þau heiðurshjón Tómas Hansson og Bára Lárusdóttir úr Reykjanesbæ hafi svo sannarlega svarað „Neyðarkalli“ björgunarsveitanna um síðustu helgi sem og margir aðrir. Þau hjónin færðu Björgunarsveitinni Suðurnes myndarlegan fjárstyrk fyrir óeigingjarnt starf sveitarinnar.
Sveitirnar vilja koma á framfæri kæru þakklæti fyrir góðan stuðning og þann mikla velvilja þær mættu í söfnuninni, þrátt fyrir ástandið í þjóðfélaginu.
Mynd: Kári formaður Björgunarsveitar Suðurnes afhendir hjónunum Tómasi og Báru stóra Neyðarkallinn í þakklætisskyni fyrir stuðning þeirra við björgunarsveitina.