Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Töluvert um óþægileg svæði á Vatnsnesi að sumri til
Föstudagur 18. ágúst 2023 kl. 06:22

Töluvert um óþægileg svæði á Vatnsnesi að sumri til

Fá svæði þar sem hægt er að sitja lengi og mikið um varasöm svæði

Reykjanesbær hefur lagt til óverulega breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins fyrir Vatnsnes í Keflavík. Heildarfjölda íbúða og byggingarmagns á reit „M9 Vatnsnes“ sbr. uppdrætti JeES arkitekta frá 7. júní 2023 er aukinn. Umhverfis- og skipulagsráð samþykkir erindið.

Í síðustu fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar segir að við lokaúrvinnslu endurskoðunar Aðalskipulags Reykjanesbæjar 2020–2035 náðist ekki fram sú metnaðarfulla uppbygging sem kynnt hafði verið fyrir svæðið. Heildarfjöldi íbúða er skv. gildandi aðalskipulagi 600 en verði með breytingunni 1.250 og heildarbyggingarmagn geti orðið 125.000 m2. Þetta samræmist þeim skipulagsáætlunum sem þegar hafa verið samþykktar eða auglýstar og þess fjölda íbúða sem fyrir eru þegar reitir á svæðinu voru sameinaðir í reit „M9“.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Samkvæmt aðalskipulaginu verður heimilt að byggð verði allt að sex til sjö hæðir meðfram strönd Vatnsness að austanverðu, enda veldur það ekki skuggavarpi yfir byggðina og unnin var vindgreining sem sýndi ekki fram á neikvæð áhrif á vind hvort sem byggð yrði fimm eða sjö hæðir á þessum stað.

Gerð hefur verið vindgreining á deiliskipulagi fyrir Vatnsnes, Reykjanesbæ, þar sem bornar voru saman tvær tillögur með mismunandi hámarkshæð bygginga; annars vegar fimm hæðir og hins vegar sjö hæðir. Það var verkfræðistofan Örugg sem vann vindgreininguna. Hermun á vindi var gerð fyrir tólf vindáttir þannig að auðvelt yrði að bera saman vindhraða í 1,5 metra hæð í tillögunum tveimur. Auk þess var lagt mat á vindafar innan tillaganna með vindvist þar sem svæði innan tillaganna eru flokkuð eftir gæðum og öryggi.

„Vindvist í deiliskipulaginu ber þess merki að vera óvarið fyrir vindi af sjó og vera stakstæðar byggingar, þar sem töluvert um óþægileg svæði er að finna að sumri til, fá svæði þar sem hægt er að sitja lengi og mikið um varasöm svæði. Vindvist er almennt betri vestanmegin við byggingarnar heldur en annars staðar þ.a. ásinn sem liggur frá norðri til suðurs á milli bygginganna hentar betur til útivistar heldur en ásar sem liggja frá vestur til austurs sama hvort hámarkshæð bygginga yrði fimm hæðir eða sjö hæðir.

Niðurstöðurnar sýndu að staðbundinn vindhraði við byggingarnar yrði hærri ef þær yrðu hækkaðar um tvær hæðir í þeim vindáttum sem koma frá sjó þar sem vindur magnast á milli bygginganna. Hins vegar eru þessi áhrif á svæðum þar sem vindvist er þegar óþægileg miðað við fimm hæða hús hvað varðar gæði og varasöm m.t.t. öryggis.

Í deiliskipulaginu verður lítil breyting á vindvist, bæði hvað varðar gæði og öryggi, þótt byggingarnar fjórar yrðu hækkaðar um tvær hæðir. Lagt er til að nýta niðurstöðurnar til að staðsetja innganga og dvalarsvæði m.t.t. vindvistar ásamt því að setja fram markmið um vindvist á einstaka svæðum og kanna staðbundnar aðgerðir til að ná þeim markmiðum, sama hvort hámarkshæð bygginga væri fimm hæðir eða sjö hæðir,“ segir í samantekt verkfræðistofunnar.