Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Töluvert stærra og meira gos en í fyrra
Mynd: Hjálmar Árnason
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
miðvikudaginn 3. ágúst 2022 kl. 17:37

Töluvert stærra og meira gos en í fyrra

Gígar eldgossins, sem hófst við Geldingadali á öðrum tímanum í dag, liggja frá austan við norðurenda sprungnanna sem voru virkar í gosinu sem átti sér stað í fyrra og ná upp í hlíðar Kistufells. Þá þykir líklegt að verði til hrauntjörn sem muni renna út í Merardali. 
Almannavarnir boðuðu á blaðamannafund klukkan 17:30 í dag vegna gossins. Á fundinum voru þau Magnús Tumi Guðmundsson frá Háskóla Íslands, Elín Björk Jónasdóttir frá Veðurstofu Íslands og Víðir Reynisson frá Almannavörnum. 

Víðir hóf fundinn með því að biðla til fólks að fara varlega í kringum gosstöðvarnar. „Í dag sendum við út sms þar sem við vöruðum fólk við því að fara á staðinn meðan við erum að meta stöðuna og við erum enn þá að meta stöðuna og fara yfir þau gögn sem er búið að afla í dag,“ segir Víðir. Almannavarnir sendu um það bil átta þúsund skilaboð til fólks á svæðinu og svo virðist vera að um helmingurinn sé með erlend símanúmer. Víðir segir gönguna að gosinu vera töluvert erfiðari en þá sem þurfti að fara fyrir síðasta gos og því þurfi fólk að vera vel búið fyrir hana.

Magnús Tumi segir atburðarásina sem nú er í gangi ekki koma á óvart en talið er að þetta gos sé mun stærra en gosið sem var í fyrra. „Þetta er um 300 metra sprunga, öll virk. Þetta er töluvert stærra og meira heldur en var í fyrra. Þetta er, á að gíska, fimm til tíu sinnum stærra,“ segir Magnús Tumi. Hann segir að þrátt fyrir það sé ekki um að ræða stórgos en það þýði að fara verði varlega á svæðinu. Óvissa ríkir um hversu lengi má búast við að gosið standi yfir en Magnús Tumi segir að „við verðum bara að bíða og sjá og fylgjast vel með þessu.“ Þá biðlar Magnús, líkt og Víðir, til fólks að vera varkárt ef það ætlar upp að gosstöðvunum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Elín Björk, veðurfræðingur, segir meira gas fylgja þessu eldgosi en því fyrra og því er auðveldara að finna fyrir einkennum komi maður nærri gosinu. „Það er mjög mikilvægt að þau sem ætla að vera eitthvað þarna á ferðinni fari ekki ofan í dældir og þá sérstaklega ekki ofan í dalinn sem sprungan er opin heldur haldi sig uppi á þessun hnúkum sem eru þarna í kring,“ segir Elín. 

Víðir endaði fundinn á því að brýna enn frekar fyrir fólki sem ætlar upp að gosinu að gönguleiðin sé löng, grýtt og erfið og bætir við: „Þannig að fariði varlega þið sem ætlið að fara á svæðið.“

Mynd: Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra
Samkvæmt nýjustu upplýsingum er fólk farið að streyma á nýju gosstöðvarnar og myndir farnar að berast á samfélagsmiðla. Hjálmar Árnason, fyrrverandi skólastjóri og þingmaður var mættur á staðinn fyrr í dag og tók myndir. Einnig má sjá hér í fréttinni eina af fyrstu loftmyndunum frá Veðurstofu Íslands sem tekin var í eftirlitsflugi Landhelgisgæslunnar. 
Mynd: Hjálmar Árnason
Mynd: Hjálmar Árnason
Mynd: Hjálmar Árnason
Hjálmar Árnason við gosstöðvarnar. Mynd: Hjálmar Árnason
Hörður Kristleifsson, ljósmyndari, var einnig fljótur á svæðið og var fyrstur til þess að ná drónaskoti af nýja gosinu. Hér að neðan má sjá myndbandið.