Töluverður snjór í Grindavík og vinna liggur niðri
Vinna liggur að mestu leyti niðri í Grindavík í augnablikinu. Töluverður snjór er í bænum og er unnið að því að hreinsa götur bæjarins. Þegar því líkur hefst vinna að nýju við að koma vatni og rafmagni á húsin í bænum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni.
Önnur verðmætabjörgun er ekki í gangi og verður ekki fyrr en að kvarði á hættumatskorti Veðurstofu fer niður í töluverða hættu.
Unnið er að kortlagningu á sprungum í og við Grindavík. Í Grindavík er talin vera mjög mikil hætta á jarðskjálftum, sprungum, hraunflæði, sprunguhreyfingum, gosopnun án fyrirvara og hættulegri gasmengun.
Hættumatskort Veðurstofunnar var gefið út í gær kl. 15 og gildir til 19. janúar 2024, kl. 15 að öllu óbreyttu.
Áfram verður tekið á móti húslyklum í dag og næstu daga í Þjónustumiðstöð Almannavarna í Tollhúsinu við Tryggvagötu (opnunartími frá 10-17) eða í húsnæði Brunavarna. Suðurnesja að Flugvöllum 33 í Reykjanesbæ.