Töluverður snjór á Suðurnesjum
Töluverðum snjó hefur kyngt niður á Suðurnesjum í morgun og er mikil hálka á götum, sérstaklega inn í hverfum. Að sögn lögreglunnar í Keflavík hafa ekki orðið nein óhöpp fyrir utan slys á Reykjanesbraut í morgun.
Klukkan 6 var norðaustlæg átt, víða 5-10 m/s. Skýjað, en þurrt um landið norðan- og austanvert og skýjað með köflum suðaustantil. Snjókoma suðvestanlands og á stöku stað vestanlands. Hlýjast var 3 stiga hiti í Vestmannaeyjabæ, en kaldast var 7 stiga frost á Húsafelli og í Skaftafelli.
Veðurhorfur á landinu næsta sólarhring:
Austlæg átt, víða 5-10 m/s, en norðan 8-13 á útnesjum vestan til með kvöldinu. Dálítil snjókoma á vestanverðu landinu í dag, en annars úrkomulítið. Norðlæg átt, víða 8-13 m/s og snjókoma eða él á morgun. Hiti kringum frostmark sunnanlands, en frost annars 1 til 8 stig.
VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson.