Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Tollverðir gagnrýna aðferðafræði og heimta skýringar -funda í Leifsstöð
Fimmtudagur 27. mars 2008 kl. 19:00

Tollverðir gagnrýna aðferðafræði og heimta skýringar -funda í Leifsstöð


„Við gagnrýnum þessa aðferðafræði og það að engar skýringar fylgja í pakkanum.Við sjáum ekki að þetta faglega samstarf lögreglu og tollgæslu eigi eftir að ganga jafn vel í framtíðinni eftir þessa tilfærslu“, sagði Andrés Ottósson deildarstjóri í Tollgæslunnar á Suðurnesjum rétt fyrir fund tollvarða í Leifsstöð klukkan sex.

Eins og fram kom í fréttum fyrir páska var tekin sú ákvörðun að færa tollgæslu frá dómsmálaráðuneytinu til fjármálaráðuneytisins og öryggisgæslan var færð til Flugmálastjórnarinnar á Keflavíkurflugvelli. Á síðasta ári voru embætti lögreglu á Suðurnesjum og lögreglu og tollgæslu á Keflavíkurflugvelli sameinuð í eitt embætti auk þess sem öryggisgæsla fór undir sama hatt. Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra sagði þá í viðtali við fréttamenn ánægður með sameininguna og bjartsýnn á framtíð starfsins. Sameiningin væri í takt við aukna starfsemi á svæðinu, bæði tengt alþjóða flugi og fjölgun á Suðurnesjum. Fyrir páska sendi hann þennan hóp til Árna Mathiesen, fjármálaráðherra, fyrsta þingmann Suður-kjördæmis. Samkvæmt heimildum Víkurfrétta fékk þessi hópur að heyra þá ákvörðun í fréttum fjölmiðla og var eins og blaut tuska í andlitið.

„Það eru allir uggandi um framtíðina. Við höfum ekki fengið skýringu á þessari framkvæmd. Við erum slegnir yfir þessari ákvörðun. Þetta er afturför um mörg ár því samstarf tollgæslu og lögreglu hefur gengið mjög vel undanfarið. Við höfum náð mjög góðum árangri undanfarin ár og hugsanlega er verið að tefla því í tvísýnu.“ sagði Andrés.

Fréttamenn fengu ekki að sitja fund tollvarða áðan. Þeir óskuðu eftir því að fá að ræða sín mál fyrir lokuðum dyrum fjölmiðla því mörgum væri heitt í hamsi. Von er á fréttatilkynningu frá fundinum síðar í kvöld.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024