Tólf ný kynferðisbrotamál frá áramótum
Alls eru nú 16 kynferðisbrotamál til meðferðar við embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum, 13 þeirra eru enn til rannsóknar en 3 eru til afgreiðslu hjá lögfræðideild embættisins. Frá áramótum hafa 12 kynferðisbrot komið til rannsóknar sem er talsverður fjöldi mála á tæplega tveimur mánuðum.
Börn eru brotaþolar í 12 þessara mála. Í 6 tilvikum er um ný eða nýleg brot að ræða en í 6 tilvikum gömul brot sem ætla má að séu fyrnd í einhverjum tilvikum. Í 3 tilvikum af þessum gömlu brotum voru brotaþolar börn þegar brotin áttu sér stað en skýrðu ekki frá þeim fyrr en á fullorðinsaldri.
Þess má geta að í framangreindum málum var í tveimur tilvikum um tælingu/tilraun til tælingar í gegnum internetið að ræða.
Af þeim kynferðisbrotamálum sem komu til rannsóknar hjá lögreglunni á Suðurnesjum árið 2012 voru 8 nauðgunarmál og voru 5 þeirra afgreidd fyrir áramótin. Meðal rannsóknartími þeirra var 47,6 dagar og meðalmeðferðartími hjá lögfræðideild 7,4 dagar. Tvö málanna voru afgreidd eftir áramótin þannig að eitt er enn til rannsóknar.
Í rannsóknardeild alvarlegra mála hjá embættinu starfa 5 rannsóknarlögreglumenn sem auk kynferðisbrotarannsókna sinna rannsóknum annarra ofbeldisbrota í umdæminu ásamt fjölda annarra alvarlegra brotaflokka.