Tólf íbúðir á Suðurnesjum á vegum Leiguheimila í fyrsta áfanga
- Fyrstu íbúðirnar líklega tilbúnar á næsta ári
Verið er að koma á laggirnar nýju húsnæðiskerfi hér á landi að danskri fyrirmynd. Kerfið kallast Leiguheimili og verða tólf íbúðir á Suðurnesjum í kerfinu í fyrsta áfanga, sjö í Reykjanesbæ á vegum Brynju, hússjóðs Öryrkjabandalagsins og fimm í Sandgerði á vegum Þroskahjálpar.
Leiguheimilin byggja á nýlegu lagafrumvarpi félags- og húsnæðismálaráðherra og verða langtíma valkostur fyrir almenning á leigumarkaði og verða leigugreiðslur 20 til 30 prósent lægri en á almennum markaði. Til að sækja um slíkar íbúðir mega mánaðarlegar tekjur heimilisins ekki vera yfir ákveðnum mörkum. Tekjumörkin fyrir einstakling með tvö börn eru núna 593.583 krónur, fyrir hjón eða sambúðarfólk með tvö börn 751.917 krónur og fyrir hjón eða sambúðarfólk með fjögur börn 949.750 krónur. Ný tekjumörk verða gefin út árlega.
F jórtán aðilar sóttu um stofnframlög úr ríkissjóði til að byggja eða kaupa 571 íbúð á 28 stöðum í 17 sveitarfélögum. Bæði er hægt að kaupa íbúðir og færa inn í Leiguheimilakerfið og reisa nýbyggingar. Í flestum tilfellum þarf að reisa Leiguheimilin frá grunni enda er víða lítið framboð af hagkvæmu húsnæði og ein af kröfunum fyrir úthlutun stofnframlags er að húsnæðið sé byggt á hagkvæman og hugvitsamlegan hátt.
Hluti af Leiguheimilunum verður laus til umsóknar fljótlega en hluti þeirra, eins og áform Almenna íbúðafélagsins sem er í eigu ASÍ og BSRB, gætu komist í gagnið eftir um það bil 18 mánuði. Alls eru 467 Leiguheimilanna sem umsækjendur vilja reisa eða kaupa á höfuðborgarsvæðinu en 104 þeirra eru á landsbyggðinni.