Tólf handteknir í fíkniefnaaðgerð á Suðurnesjum
Lögreglan á Suðurnesjum ásamt fíkniefnadeild tollstjórans á Suðurnesjum og sérsveit og greiningardeild Ríkislögreglustjórans fór í gær í skipulagða lögregluaðgerð gegn meintum dreifingar-og söluaðilum fíkniefna á Suðurnesjum.
Þetta er viðamesta lögregluaðgerð að þessum toga sem framkvæmd hefur verið á Suðurnesjum. Þegar mest var komu samtals 36 lögreglumenn og 4 tollverðir með tvo fíkniefnaleitarhunda að aðgerðunum þegar farið var í 5 húsleitir á sama tíma snemma á laugardagskvöldinu. Í öllum þessum húsleitunum fundust fíkniefni og voru níu aðilar handteknir og yfirheyrðir vegna meintra fíkniefnabrota. Samtals var lagt hald á um það bil 135 gr. af hassi, 65 gr. af hvítu efni og 10 e-töflur.
Upp úr miðnætti var farið í eina húsleit til viðbótar og þar voru 3 menn handteknir, en þar voru haldlögð 10 gr. af hassi og 1 gr. af amfetamíni.
Farið var á skemmtistaði í embættinu þar sem framkvæmd var líkamsleit á um það bil 20 einstaklingum sem grunaðir voru um vörslu fíkniefna og fundust á einum 2 gr. af amfetamíni.
Í tilkynningu frá embætti lögreglustjóra segir að þessi lögregluaðgerð sé lýsandi fyrir breytingar sem urðu um áramótin við sameiningu lögregluembætta í landinu. Lögreglan á Suðurnesjum mun leggja mikla áherslu á að ná tökum á brotastarfsemi sem tengist fíkniefnabrotamönnum sem hafa því miður verið of fyrirferðamikilir í umdæminu á undanförnum misserum. Lögð verður áhersla á aukna samvinnu á milli lögregluliða og er þessi aðgerð dæmi um vel heppnaða samvinnu.
Lögreglan leitar til almennings um að koma upplýsingum sem hann býr yfir um meint fíkniefnabrot í síma 420-1880 eða á netfang lögreglunnar á Suðurnesjum [email protected]
Myndir frá aðgerðum lögreglu í gær.
.