Tökum við Hafnargötu lokið og leikmyndin rifin
Aðeins viku eftir að uppbygging leikmyndar True Detective hófst við Hafnargötuna í Keflavík er tökum lokið. Frá því snemma í morgun hefur verið unnið að því að fjarlægja leikmyndina, þrífa upp gervisnjó og taka niður skilti og merkingar. Gert er ráð fyrir að síðar í dag verði öll ummerki eftir kvikmyndatökurnar farin af Hafnargötunni.
Það er ekki þar með sagt að kvikmyndatökuliðið hafi yfirgefið bæjarfélagið, því enn eru eftir upptökur við Sunnubraut í Keflavík, á tveimur stöðum í Njarðvík og einnig á Ásbrú.
Meðfylgjandi myndir (í myndasafni hér að neðan) tók Hilmar Bragi af hreinsunarstarfi í morgun.