Tóku eldsneyti og yfirgáfu Keflavíkurflugvöll með hraði
Þota Air Berlin, sem haldið var á Keflavíkurflugvelli frá 20. október sl. vegna skuldar flugfélagsins við Isavia, er farin frá Keflavíkurflugvelli.
Þotan fór í loftið kl. 17:20 áleiðis til Þýskalands. Talsverðan tíma tók að koma vélinni í burtu. Fyrsta brottför var áætluð kl. 15:00 en ítrekað var brottförinni seinkað.
Um kl. 17 var eldsneyti dælt á þotuna sem síðan var sett í gang og ekið að flugbraut. Þotan þurfti stutta braut og var komin í loftið kl. 17:20 og er núna á leiðinni til Þýskalands, eins og áður segir.
Flugtakið frá Keflavíkurflugvelli núna áðan er sögulegt því þetta gæti verið síðasta flug flugvélar Air Berlin yfir opið haf en flugfélagið er gjaldþrota og hætt starfsemi.
Vélin var kyrrsett þann 20. október sem trygging fyrir ógreiddum skuldum Air Berlin við Isavia. Skuldirnar skiptu milljónum. Síðdegis á mánudag barst svo staðfesting á því að skuldin hafi verið greidd og þotunni frjálst að fara.
Hún fór svo loks í dag, tveimur sólarhringum síðar.
Myndirnar voru teknar við brottför vélarinnar nú síðdegis.
VF-myndir: Hilmar Bragi