Tókst að koma í veg fyrir stórslys
Steinþór Jónsson, formaður gististaðanefndar Samtaka ferðaþjónustunar á Íslandi fangar niðurstöðu um 14% virðisaukaskatt
Steinþór Jónsson, formaður gististaðanefndar Samtaka ferðaþjónustunar á Íslandi fangar niðurstöðu um 14% virðisaukaskatt í stað 25.5% sem Oddný Harðardóttir fyrrverandi fjármálaráðherra lagði upp með í haust sem og frestun á gildistöku laganna fram til 1. september 2013.
„Okkur tókst með faglegum rökum, samstöðu og mikili vinnu að ná þessum tvöfalda árangri og tryggja þannig rekstargrundvöll greinarinnar og koma í veg fyrir stórslys sem annars hefði orðið. Þetta er búin að vera löng og ströng barátta enda fyrir suma hagsmunaaðila einfaldlega spurningin um að lifa þetta af. Í þessum geira sem og öðrum standa fyrirtækin misvel og sumir aðilar sem eru ný byrjaðir mjög skuldsettir enda fjárfestingar í hótel- og gistiheimilum mjög dýr,“ segir Steinþór Jónsson hótelstjóri á Hótel Keflavík. 14% virðisaukaskattur verður því settur á gistingu frá og með 1. september 2013 en fulltrúar Bjartrar framtíðar og Framsóknar sátu hjá í Efnahags- og viðskiptanefnd um þá tillögu að fresta gildistöku laganna til 1. janúar 2014. Eftir situr þó að flækjustig vegna fjórða þrepsins á virðisaukaskatt á sölu þjónustu hótela liggur fyrir og hefur ríkisskattstjóri m.a. gangrýnt þessa ákvörðun stjórnvalda mjög.
Að sögn Steinþórs er það einnig mjög gagnrýnisvert að rakalaus tillaga um að hækka virðisaukaskattinn um hundruði prósenta, eða úr 7% í 25.5%, þegar þann 1.maí n.k. skuli hafa lekið í fjölmiðla á sínum tíma og að engin samráð hafi verið höfð við greinina um þá hugmynd. „Þrátt fyrir að við höfum þó náð þessari niðurstöðu liggur fyrir að sú uppákoma sem varð í haust hefur þegar skaðað ferðaþjónustuna á Íslandi verulega og hafa stærri hótelkeðjur þegar upplýst í fjölmiðlum um 15% samdrátt á bókunum frá fyrra ári. Hvert prósentu stig í samdrætti eða minni aukningu sem annars hefði orðið hefur m.a. mikil áhrif hér á Suðurnesjum enda ferðaþjónusta stór hluti af okkar sóknartækifærum s.s. í Flugstöðinni, Bláa Lóninu, hótel og gististöðum, veitingastöðum og miklum fjölda afþreyingarfyrirtæka svo ekki sé minnst á aðra verslun á svæðinu. Allir þessir aðilar eru betur settir nú en ef af þessum áformum hefði orðið. Það hefði einfaldlega verið rothögg fyrir ferðaþjónustuna.“
Steinþór segir þessa baráttu hafa verið mjög lærdómsríka enda hafi mikið legið undir. „Markaðsstarf og góður árangur síðustu ára var í hættu og lít ég svo á að þetta hafi verið sú stærsta ógn sem okkar fyrirtæki hefur staðið frammi fyrir frá stofnun fyrir 26 árum síðan. En rökin voru öll okkar megin og niðurstaðan mikil léttir fyrir okkar fyrirtæki, ferðaþjónustuna og þjóðarbúið allt. Við getum ekki skattlagt okkur til hagnaðar. Sem betur fer var engin raunveruleg samstaða um þessa tillögu Oddnýjar, hvorki í minni eða meirihluta, og ríkisstjórnin sjálf sem féll að lokum frá þessari hugmynd eftir að ferðaþjónustan fékk á síðari stigum tækifæri til að leggja spilin á borðið. Það hefði verið farsælla fyrir alla að eitthvað samráð hefði verið við ferðarþjónustu fyrirtækin á fyrri stigum máls.“
„Sem formaður gististaðanefndar Samtaka ferðaþjónustunar mun ég beita mér fyrir að upplýsa þingmenn enn frekar um stöðu og möguleika greinarinnar til framtíðar. Leyfislaus gisting er nú í nýjum hæðum skv. vefsíðum sem bjóða gistingu í hinum ýmsu rýmum og hefði frekari hækkun virðisaukaskatts nú gefið þessum aðilum byr undir báða vængi. Við þurfum að auka markaðsstarf og afkomu greinarinnar til muna á næstu árum. Virðisaukaskattur í samkeppnislöndunum í kringum okkur er í dag um 10% að meðaltali og á virðisaukaskattur gistingar ekki að vera hærri hér á landi ef við ætlum að auka fjölda ferðamanna, styrkja atvinnu og fjölga störfum í greininni.“