Tók framúr löggunni á 150 km. hraða
Erlendur ökumaður sem var á ferðinni eftir Reykjanesbraut í gær ók með þeim hætti að lögreglan á Suðurnesjum svipti hann ökuréttindum til bráðabirgða. Lögreglumenn voru við umferðareftirlit þegar bifreið var ekið með ofsahraða á eftir lögreglubifreiðinni. Þegar saman dró töldu lögreglumenn að ökumaður bifreiðarinnar myndu aka aftan á lögreglubifreiðina og skiptu því um akrein. Var bifreiðinni þá ekið fram úr lögreglubifreiðinni og mældist hún á 150 km hraða. Auk ökumanns voru fullorðinn farþegi svo og 10 ára barn í bifreiðinni. Ökuskírteini ferðalangsins er í geymslu á lögreglustöð þar til að hann fer úr landi.
Þá hefur lögregla kært á fjórða tug ökumanna fyrir of hraðan akstur á síðustu dögum. Einn þeirra ók yfir tvöföldum hámarkshraða því hann mældist á 61 km hraða þar sem hámarkshraði er 30 km. Annar, sem ók Reykjanesbrautina, mældist á 145 km hraða þar sem hámarkshraði er 90 km.
Fáein umferðaróhöpp hafa orðið í umdæminu á undanförnum dögum en þau voru öll minni háttar og engin slys á fólki.