Tók eldsneyti í Keflavík fyrir langt sjúkraflug
Þyrla og flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-LIF og TF-SYN, flugu í dag 250 sjómílur út á haf til að sækja sjúkling um borð í skoska togarann Norma Mary. Þyrlan hafði viðkomu í Keflavík til að taka eldsneyti, þar sem langt flug var fyrir höndum. Þyrlan kom síðan að skipinu 251 sjómílu vestur af Keflavík.
Skipverjar á skoska togaranum Norma Mary höfðu samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar laust fyrir kl. sjö í gærkvöldi og óskuðu eftir ráðleggingum læknis vegna karlmanns um borð sem var með mikla brjóstverki. Skipið var þá statt 450 sjómílur vestur af Íslandi.
Stjórnstöðin gaf samband við lækni í þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar sem leiðbeindi skipverjum um meðferð og umönnun sjúklingsins. Hann taldi nauðsynlegt að senda þyrlu til að sækja hann við fyrsta tækifæri.
Skipstjóri Norma Mary var beðinn um að halda þegar í átt til Reykjavíkur þar sem skipið var statt fyrir utan drægi þyrlunnar. Sjúklingurinn var í stöðugu ástandi og var óskað eftir að stjórnstöð yrði látin vita um allar breytingar á líðan hans.
Þegar skipið var komið nógu nálægt landinu, kl. 12:30 í dag, fór TF-LIF í loftið. Nauðsynlegt var að koma við í Keflavík og taka eldsneyti til að fylla vélina fyrir svo langt flug. Þaðan var haldið kl. 13:17. Stuttu síðar fór Fokker-flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SYN, í loftið en henni var ætlað að fylgja þyrlunni af öryggisástæðum.
Þegar TF-LIF kom að skipinu kl. 15:11 var það statt 251 sjómílu vestur af Keflavík. Það tók einungis um 10 mínútur að flytja sjúklinginn um borð í vélina og lenti hún kl. 18 við flugskýli Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli. Þar beið sjúkrabíll sem flutti sjúklinginn á Landspítala Háskólasjúkrahús. TF-SYN hafði lent á Reykjavíkurflugvelli hálftíma áður.
Ljósmynd: Landhelgisgæzlan