Togveiðiskip frá Reykjanesbæ landaði fram hjá
Um hádegisbilið í gær barst Lögreglunni í Keflavík tilkynning frá starfsmönnum Fiskistofu Íslands um að togveiðiskip, sem gert er út frá Reykjanesbæ, hafi landað fram hjá vigt. Umrædd löndun hafði átt sér stað í Njarðvíkurhöfn nóttina áður en um var að ræða 7,4 tonn af þorski. Fiskmarkaður Suðurnesja vigtaði umræddan fisk fyrir Fiskistofu Íslands í Sandgerði en þangað hafði hann verið fluttur til verkunar.
Samkvæmt útreikningum Víkurfrétta þá er verðmæti aflans 1.3 milljónir króna ef að kílóið reiknast á 180 krónur.
„Það er alltaf eitthvað um að þessi atvik séu kærð til Lögreglu hérna á Suðurnesjum,” sagði Sveinbjörn Halldórsson hjá rannsóknardeild Lögreglunnar í Keflavík. Sagði hann einnig að suma mánuði fá þeir engar tilkynningar en síðan koma mánuðir þar sem 3-4 svona tilvik koma upp.
Bæði skipstjóri og útgerðarfélag er kært en síðan kemur það í ljós eftir rannsókn málsins hverjir bera ábyrgð á þessu.
Þetta er brot á lögum um umgengni um nytjastofnun sjávar frá 1996. En þar er sagt að fyrsta brot geti varðað leyfissviptingu ekki skemur en í 2 vikur og allt að 12 vikur vikur eftir eðli brotsins og stærð þess.
Hvað varðar kæruna og opinbera rannsókn þá er fyrsta brot ekki lægri sekt en 400 þúsund krónur og allt að 4 milljónum eftir eðli brotsins og stærð þess.
Rannsókn er í fullum gangi.
VF-mynd/Atli Már: Starfsmenn fiskmarkaðs Suðurnesja vigta aflann