Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Togari fórst í Noregshafi: Sjómenn frá Suðurnesjum taldir af
Fimmtudagur 26. janúar 2012 kl. 10:00

Togari fórst í Noregshafi: Sjómenn frá Suðurnesjum taldir af

Þrír íslenskir sjómenn eru taldir af en einn bjargaðist eftir að togarinn Hallgrímur SI-77 fórst í Noregshafi um 150 sjómílur norðvestur af Álasundi í Noregi í gærdag. Neyðarkall barst frá neyðarsendi í skipinu klukkan 13:14 í gær. Síðan náðist ekkert samband við skipið. Tveir þeirra sem taldir eru af eru sjómenn frá Suðurnesjum. Ekki er unnt að greina frá nöfnum þeirra.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Tvær Sea King björgunarþyrlur og Orion leitarflugvél fóru þegar til leitar á svæðinu þar sem neyðarsendir skipsins gaf upp síðustu staðsetningu skipsins. Leitin bar þann árangur að einum sjómanni var bjargað úr hafinu við erfiðar aðstæður. Hann var í flotgalla og var fluttur til Álasunds með þyrlunni sem lenti þar kl. 20 í gærkvöldi að íslenskum tíma. Maðurinn hafði verið í sjónum í hálfa fjórðu klukkustund. Sjávarhiti var tvær gráður og ölduhæðin 10 til 15 metrar og veður fór versnandi. Brak úr skipinu sást á haffletinum og þá fannst björgunarbátur en hann var mannlaus.


Haft er eftir áhöfn björgunarþyrlunnar í norskum miðlum að sá sem bjargaðist hafi greint frá því að tveir menn hafi komist í flotbúninga. Flotbúningur hans hafi verið í lagi en hinn lekið. Þá að hann hefði séð tvo úr áhöfninni hverfa í hafið en þeir hafi ekki verið í flotbúningum.

Þegar þyrlan lenti í Álasundi var manninum þegar ekið á sjúkrahús til skoðunar. Var líðan hans sögð góð miðað við aðstæður.


Verið var að flytja togarann Hallgrím SI til Noregs þar sem hann átti að fara í brotajárn. Hann var síðast gerður út frá Siglufirði. Togarinn var um tíma gerður út frá Grindavík. Þá hét hann Þuríður Halldórsdóttir GK og síðar Sturla GK en það var Þorbjörn hf. sem gerði skipið út.


Systurskip Hallgríms SI fórst fyrir tveimur áratugum útaf Vestfjörðum. Það var einnig gert út frá Suðurnesjum um tíma og hét þá Haförn GK og Gautur GK.



Myndin af skipinu er af vef vg.no og er frá Fréttablaðinu. Myndin af björgunarþyrlunni er af vef tv2.no.