Tófunni verði beitt gegn mávum við flugvöllinn
Hætta stafar af sílamávi við Keflavíkurflugvöll en takmarkaðar rannsóknir hafa verið gerðar til að finna leiðir til að fækka þeim. Talið er að um 37.000 mávar séu heiðinni yfir sumartímann og hér er langstærsta mávavarp á Íslandi. Í Morgunblaðinu í dag er viðtal við Gunnar Þór Hallgrímsson, doktorsnema í líffræði við Háskóla Íslands en hann kannar það m.a. hvort nota megi tófu til að fækka mávum við flugvöllinn.
Víkurfréttir fjölluðu um málið árið 2002. Stefán Thordersen, forstöðumaður öryggissviðs Flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli, sagði þá í samtali við Víkurfréttir að refir séu ákjósanlegt verkfæri til að tryggja flugöryggi við flugbrautir Keflavíkurflugvallar. Refir væru ekki vandamál ef þeir væru í heiðinni umhverfis Keflavíkurflugvöll, að mati Stefáns. Þar á bæ vilja menn sjá tófunni fjölga í umhverfi flugvallarins, sagði í Víkurfréttum árið 2002.
Í Morgunblaðinu í dag segir: Nokkur hætta stafar af gríðarlegum fjölda sílamáva við Keflavíkurflugvöll en takmarkaðar rannsóknir hafa verið gerðir til að finna leiðir til að fækka þeim. Þetta segir Gunnar Þór Hallgrímsson, doktorsnemi í líffræði við Háskóla Íslands.
Gunnar vinnur nú að doktorsverkefni í fuglavistfræði og er megintilgátan að nota megi tófu til að fækka sílamávum við flugvöllinn. Hann segir að varpinu við völlinn hafi verið gefinn lítill gaumur þar til árið 1974, en þá varð þota frá Loftleiðum að lenda strax eftir flugtak, þar sem kviknaði í hreyfli hennar eftir að mávur sogaðist inn í hann.
Um 37 þúsund mávar yfir sumarið
„Þá voru aðeins um eitt til tvö þúsund mávar þarna en nú eru þeir um 37.000 yfir sumartímann og er þetta langstærsta mávavarp á Íslandi. Líffræðistofnun Háskóla Íslands var eftir þetta fengin til að finna aðferðir til að fækka mávunum. Um miðjan níunda áratug síðustu aldar varð síðan ljóst að fuglunum hafði fjölgað gríðarlega og síðan hefur verið unnið að fækkun þeirra.“ Gunnar segir að menn séu í vinnu allt sumarið við að fækka mávunum með skotveiðum, en þeim hafi þó fjölgað.
Hagkvæmt að nýta tófuna
Varplendið við völlinn þéttist stöðugt en útbreiðsla þess hefur minnkað og tengir Gunnar það við að tófur hafi í auknum mæli komið inn á svæðið. Hann kannar því hvort nýta megi tófuna gegn mávunum og segir að það yrði hagkvæm leið. Þá rannsakar hann einnig hvort tófan hafi áhrif á þéttleika mófugla, en kenningar hafa verið settar fram um það. Nú er refalaust ár og allar tófur skotnar, en Gunnar vonast til að þær verði friðaðar frá næsta vetri svo fylgjast megi með breytingum á fuglalífi í kjölfar þess.
Verkefnið hófst í fyrra og mun taka um fimm ár. Það er samstarfsverkefni Háskólaseturs Suðurnesja, Náttúrustofu Reykjaness, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Líffræðistofnunar Háskólans. Þá hefur Flugmálastjórn styrkt stofnstærðarrannsóknirnar. Gunnar er starfsmaður Náttúrustofu en hefur aðstöðu í Háskólasetrinu, en Morgunblaðið fjallaði um opnun húsnæðis þar í síðustu viku. Gunnar segir að rannsóknin hafi gengið mjög vel og að nú þegar hafi fengist mjög góðar vísbendingar um að tófan hafi mikil áhrif á útbreiðsluna. „Við teljum nokkuð líklegt að við getum haldið mávunum frá flugvellinum. Hins vegar stjórnast stofnstærðin að miklu leyti af fæðuframboði og ég er ekki viss um að tófan nái að halda stofninum niðri. Við skulum vona það besta,“ sagði Gunnar Þór Hallgrímsson við Morgunblaðið í dag.
Myndir: Stefán Thordersen sagðist í Víkurfréttum árið 2002 vilja fjölga tófu við flugvöllinn. Neðri myndin er af tófu sem drapst eftir að hafa orðið fyrir bíl á Miðnesheiði. VF-myndir: Hilmar Bragi