Tjarnarsel, HS og Bílahorninu veittar viðurkenningar fyrir fjölskyldustefnu
Leikskólinn Tjarnarsel, Bílahornið hjá Sissa og Hitaveita Suðurnesja eru fjölskylduvæn fyrirtæki samkvæmt viðkenningu sem Reykjanesbær veitir árlega til þeirra fyrirtækja sem leggja áherslu á fjölskylduna í starfsemi þeirra. Viðurkenningarnar voru veittar á degi um málefni fjölskyldunnar sem haldinn var síðastliðinn laugardag í Duushúsum.
Þetta er í sjötta sinn sem Reykjanesbær veitir þessar viðkenningar til fjölskylduvænna fyrirtækja og var auglýst eftir rökstuddum tilnefningum frá starfsmönnum fyrirtækja og stofnana.
Í tilkynningu segir að Reykjanesbær hafi sett sér fjölskyldustefnu sem hafi það m.a. að markmiði að stuðla að heildstæðri samstöðu og samhljóm milli vinnu og fjölskyldulífs. Þetta sé gert með því að hvetja fyrirtæki og stofnanir til að setja sér fjölskyldustefnu og veita síðan árlega viðurkenningar til þeirra sem sýna í verki að þeir taki tillit til fjölskyldunnar í rekstri og starfsemi.
Verðlaunahafar fengu að gjöf listmuni eftir Rúnu Hans myndlistarkonu í Reykjanesbæ.
Mynd/RNB: Frá veitingu viðurkenninganna á laugardaginn.