Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Tjaldsvæði Grindvíkinga fullt í allt sumar
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 28. júlí 2023 kl. 07:00

Tjaldsvæði Grindvíkinga fullt í allt sumar

Segja má að tjaldsvæði Grindvíkinga sé búið að vera fullt meira og minna í allt sumar og í raun hefur verið mjög góð nýting á því síðan fyrst gaus fyrir tveimur árum. Áður en gaus í sumar var alltaf þétt setið en mikið af fólki hefur verið að skoða hraunið sem myndaðist í fyrstu tveimur eldgosunum. Eldgosið í sumar við Litla-Hrút var síðan ekki til að minnka ásóknina.

Sreten Ævar Karimanovic fluttist til Íslands fljótlega upp frá aldamótum og er í dag orðinn íslenskur ríkisborgari, hann hefur stýrt tjaldsvæðinu undanfarin ár. „Það hefur alltaf verið nóg að gera hjá okkur á sumrin enda er þetta tjaldsvæði eitt það besta á Íslandi. Við erum mjög nálægt flugvellinum og það er mjög algengt að ferðamenn byrji dvöl sína á Íslandi hjá okkur og gisti síðustu nóttina áður en þau fara. Þau eru venjulega á bílaleigubílum og vilja vera nálægt bílaleigunni ef eitthvað er ekki í lagi með bílinn til að byrja með.

Það var búið að vera mjög mikið að gera áður en eldgosið byrjaði í sumar, eina sem breyttist var bara að ferðamenn stoppuðu lengur. Oft voru þetta bara ein til tvær nætur en núna stoppa ferðamennirnir lengur. Það hefur ekki verið eins mikil aukning á tjaldsvæðinu núna eins og í fyrstu eldgosunum, hugsanlega er það vegna þess að það er lengra núna að labba að gosinu. Kannski eru Íslendingar líka ekki eins áhugasamir núna en útlendingarnir sýna eldgosinu mikinn áhuga. Mikið af fólki hefur verið að koma sérstaklega til að sjá eldgosið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Erlendir ferðamenn eru í stórum meirihluta þeirra sem gista á tjaldsvæðinu. Íslendingarnir koma líka en eru kannski frekar á tjaldsvæðum sem eru á vinsælari ferðamannastöðum,“ sagði Sreten að lokum.