Tíu voru sektaðir
Tíu ökumenn hafa verið sektaðir að undanförnu í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum vegna þess að þeir lögðu bifreiðum sínum ólöglega. Sumum bifreiðanna var lagt upp á gangstétt, öðrum öfugt miðað við akstursstefnu, enn öðrum á akbraut og nokkrum á stæðum sem merkt eru fyrir leigubifreiðar. Lögreglan bendir ökumönnum á að þetta sé dýr aðferð til að spara sér sporin, því sekt við broti af þessu tagi nemur fimm þúsund krónum.