Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Tíu tímabundin hjúkrunarrými á HSS
Fimmtudagur 24. nóvember 2022 kl. 14:55

Tíu tímabundin hjúkrunarrými á HSS

Beðið eftir rýmum á hjúkrunarheimilum. Stefnt að opnun deildarinnar í byrjun nýs árs.

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja auglýsir eftir hjúkrunarfræðingum, sjúkraliðum og starfsfólki í aðhlynningu vegna nýrra rýma sem opnuð verða á HSS í byrjun næsta árs. Í auglýsingunni, sem birtist í Víkurfréttum, segir að vegna mikils skorts á hjúkrunarrýmum verður tekin í notkun ný tíu rýma deild á HSS sem tímabundið úrræði til að mæta þessum vanda.

„Framundan er mikil uppbygging á HSS og leitum við að metnaðarfullum og jákvæðum einstaklingum til að slást í okkar frábæra hóp og taka þátt í þessu spennandi verkefni með okkur,“ segir m.a. í auglýsingunni.

Óskað er eftir að ráða hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða í vaktavinnu. Einnig er óskað eftir að ráða starfsfólk í aðhlynningu. Í öllum tilvikum er æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf í byrjun árs 2023. Rýmin verða opnuð að beiðni heilbrigðisráðuneytisins til að bregðast við miklum skorti á hjúkrunarrýmum. Hún verður staðsett í D-álmu. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Að sögn Ölmu Maríu Rögnvaldsdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar hjá HSS, verða rýmin tíu notuð fyrir skjólstæðinga Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja sem hafa lokið meðferð en eru að bíða eftir að komast á hjúkrunarheimili. Alma María segir að opnun rýmanna standi og falli með því hvort takist að manna deildina, það sé mesta áskorunin. „Við erum bjartsýn á að takist að manna sérstaklega þar sem þessi rými kalla ekki á eins margt starfsfólk eins og sjúkradeildin þar sem skjólstæðingarnir eru búin með sína meðferð og eru að bíða eftir því að komast á hjúkrunarrými. Því sé hægt að hafa færri hjúkrunarfræðinga en á móti séu fleiri sjúkraliðar og ófaglærðir, eins og hjúkrunarheimili eru mönnuð.“ 

Alma segir að ráða þurfi a.m.k. þrjá hjúkrunarfræðinga og þau reyni að fá sem flesta sjúkraliða til starfa. Unnið er eftir ákveðnu módeli varðandi mönnun. Ef ekki fást hjúkrunarfræðingar verður ekki hægt að opna deildina. Alma segir að þau á HSS séu bjartsýn á að ná að manna og stefnt sé að opnun deildarinnar á fyrsta fjórðungi nýs árs. Mögulega takist ekki að opna öll rýmin strax, en stefnan sé sett á tíu rými eins og áætlanir geri ráð fyrir. Húsnæðið er tilbúið en enn vantar öll aðföng eins og sjúkrarúm og önnur húsgögn sem mun taka einhvern tíma að útvega.