Titringur í Grindavík vegna brottflutnings bæjarstjóra
Varaforseti bæjarstjórnar segir brottrekstur hafa borið á góma - Forseti telur ákvörðun bæjarstjóra ekki vera brottrekstrarsök.
Í vikunni greindi Róbert Ragnarsson bæjarstjóri Grindavíkur frá því að hann hyggðist flytja úr bæjarfélaginu á höfuðborgarsvæðið. Bæði forseti og varaforseti bæjarstjórnar vilja að Róbert búi áfram í Grindavík og eru óhress með ákvörðunina. Mikið er rætt um brottflutning bæjarstjóra í bæjarfélaginu og þar eru skiptar skoðanir um ákvörðun hans.
„Fólk hefur rétt á því að búa þar sem það vill búa. Í þessu tilfelli breytast aðstæður hjá honum á kjörtímabilinu. Ég vil auðvitað að bæjarstjóri búi í Grindavík, en ég get ekki krafið hann um það. Ég er ekkert hress með að hann sé að flytja en ég sýni því skilning,“ segir Kristín María Birgisdóttir forseti bæjarstjórnar. Að hennar sögn er ekki skilyrði í ráðningasamningi Róberts að hann verði að búa í Grindavík þannig að ekki er hann að brjóta samning sinn. „Í ráðningarferlinu sögðum við þó skýrt að við vildum að hann myndi búa í Grindavík. Það hefur hann gert í sex ár en nú eru breyttar aðstæður. Ég skil hann mjög vel að hann vilji halda heimili þar sem fólkið hans er.“
Kristín sem er fulltrúi G-lista segist ekki vera viss um að þessu máli sé lokið. „Við erum auðvitað í samstarfi með Sjálfstæðisflokknum. Ég hef sagt mína skoðun og ef það fer fram einhver umræða um að láta einhvern fara þá finnst mér þetta klárlega ekki vera brottrekstrarsök.“
Margir bæjarbúar óhressir með ákvörðun Róberts
„Ég er óhress með þessa ákvörðun,“ segir Hjálmar Hallgrímsson varaforseti bæjarstjórnar og fulltrúi Sjálfstæðisflokks. „Ég get svo sem ekki tjáð mig um það hvort eitthvað gerist eða hvað, þetta er nýlega skeð. Við erum bara að hugsa okkar mál“. Hjálmar segir ekki tímabært að tjá sig um hvort ákvörðun Róbert sé brottrekstrarsök. „Við réðum bæjarstjóra og sköffuðum honum húsnæði. Án þess að það standi geirneglt í samningi þá töldum við að hann ætlaði að búa í Grindavík á meðan að hann stýrir bænum,“ segir Hjálmar og bætir við. „Hann hefur sín persónulegu mál og ég ber alveg virðingu fyrir þeim. Við bara töldum eðlilegt að hann byggi í Grindavík.“
Hefur það borðið á góma að þetta sér hugsanleg brottrekstrarsök? „Já það hefur borið á góma. Líka víða í samfélaginu. Það eru skiptar skoðanir en ég heyri að það eru mjög margir óhressir með þetta,“ segir Hjálmar.
Fólk hefur skoðanir á þessu máli í bæjarfélaginu að sögn Kristínar og segist hún heyra báðar hliðar. Fólk sýnir þessu skilning en aðrir vilja að hann sé íbúi í bæjarfélaginu. „Í mínum huga finnst mér þessi ákvörðun hans ekki vera tilefni til þess að hann fái reisupassa,“
Kristín segir að brottrekstur hafi ekki komið upp innan bæjarstjórnar. „Við ræddum málin eftir síðasta bæjarstjórnarfund og mér finnst mikilvægt að við tökum umræðuna,“ segir Kristín en Róbert var hluti af þeim samræðum.
Hafa aðilar í meirihlutanum farið fram á að hann verði láta fara? „Það hefur ekki komið fram nein beiðni um það,“ segir Kristín.
Róbert hafði látið bæjarfulltrúa vita að hann ætlaði sér að flytja á höfuðborgarsvæðið áður en hann tilkynnti um ákvörðunina á Facebooksíðu sinni. Róbert bjó í húsnæði sem Grindavíkurbæ á. Það var hluti af hans hlunnindum. Kristín segir að það hafi ekki verið rætt hvað verði gert við húsið núna þegar Róbert flytur þaðan. „Það er skortur hér á húsnæði þannig að ég geri ekki ráð fyrir að það standi autt, það myndi ég ekki vilja sjá.“
Þegar húsið var keypt á sínum tíma var Kristín mótfallin þeim kaupum, en hún var þá í minnihluta. „Ég skil að mörgu leyti rökin sem þá komu fram. Það að vera bæjarstjóri getur verið ótryggt starf. Mér finnst ekki hægt að ætlast til þess, þegar þú ert að koma í pólitískt umhverfi þar sem ekki er víst hvort þú lifir út kjörtímabilið, að fólk sé að kaupa sér hús á staðnum. Leigumarkaðurinn hérna er líka mjög erfiður.“
Á sínum tíma leigði Róbert út herbergi í húsinu á Airbnb. Kristín segir það hafa verið mjög óheppilegt en málið hafi verið leyst þá í sátt.