Tinna fannst dauð í Keflavík
Hundurinn Tinna sem leitað hefur verið síðan á gamlársdag fannst dauð í gær við smábátahöfnina í Keflavík. Eigandi hennar skrifaði á leitarsíðu fyrir hunda á Facebook að andlát hennar væri greinilega af manna völdum. Tinna var með höfuðáverka og hafði verið sett undir um það bil tíu kílóa grjót.
Tinna var í pössun á heimili í Reykjanesbæ en slapp þaðan 29. desember. Eigendur hennar fréttu af hvarfinu á gamlársdag og síðan þá hefur fjöldi fólks leitað Tinnu. Eigendur Tinnu höfðu boðið 300.000 króna fundarlaun.
Eftirfarandi er textinn sem Ágúst Ævar Guðbjörnsson, annar eigandi Tinnu skrifaði á Facebook:
Til að byrja með vill ég þakka allan þann stuðning, samhug og aðstoð sem þið hafið gefið okkur yfir þennan erfiða tíma. Þið sem hafið stutt okkur dag og nótt, eða lagt fram ykkar framlag með einum eða öðrum hætti sýnir að hér er saman kominn hópur sem hefur hjartað á réttum stað og það hefur gefið okkur svo mikla orku, orð fá því aldrei lýst.
Nú í dag fannst Tinna okkar því miður látin við smábátahöfnina í Keflavík. Þar hafði hún verið sett undir u.þ.b 10 kg grjót og er greinilegt að andlát hennar sé af mannavöldum. Við höfum ekki nánari útskýringar á því afhverju eða hvernig Tinna lést, nema að hún hefur höfuðáverka sem að dýralæknum að dæma eru hugsanlega ekki eftir bíl. En það er ekki vitað.
Við erum sorgmædd og reið, en af sama skapi er léttir að Tinna okkar sé fundin. Tinna var okkur allt.
Frá okkar dýpstu hjartarótum þá þökkum við ykkur öllum fyrir aðstoðina og hugulsemina sem þið hafið sýnt okkur í þessari leit. Ég get aldrei launað ykkur öllum þennan tíma með öðru en orðum sem eru: Þið eruð frábær!
Líkt og önnur mál af þessum toga þá ætlum við að syrgja Tinnu okkar. Ég trúi á karma og veit að það tekur við á þessa manneskju sem hefur sýnt Tinnu okkar þessa vanvirðingu. Vanvirðingu við líf og tíma annarra sem tóku þátt í þessari leit.
Kær kveðja kæru vinir,
Ágúst Ævar Guðbjörnsson