Tíndu 1,5 tonn af rusli á tveimur tímum
-Strandhreinsunarátak er farið af stað
Sjálfboðaliðar tíndu eitt og hálft tonn af rusli á tveimur tímum við Brimketil í Grindavík á laugardaginn var. Verkið var það fyrsta í umfangsmiklu strandhreinsunarátaki sem Nettó, Samtök sveitarfélaga á Suðurnesjum og Blái herinn standa fyrir í sumar með það að markmiði að hreinsa strandir Suðurnesja. Sjálfboðaliðar á aldrinum fjórtán til sextán ára úr sund-og knattspyrnudeild UMFG voru í fararbroddi hreinsunarátaksins.
Tómas J. Knútsson, stofnandi Bláa hersins, stýrir hreinsunarátakinu. Hann hefur marga fjöruna sopið ef svo má að orði komast og ekki óvanur strandhreinsunum sem þessum. Fyrir níu árum stóð hann fyrir hreinsunarátaki við Brimketil og tíndi þá 8,8 tonn á tveimur heilum dögum.
„Sjálfboðaliðarnir stóðu svo sannarlega fyrir sínu og fyrsta skrefið í þessari hreinsun sýnir svart á hvítu að af nægu er að taka,” segir Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa sem reka Nettó.
Markmið strandhreinsunarátaksins er að safna saman rusli og færa það til endurvinnslu, en það er ekki síður til þess fallið að vekja athygli á mikilvægi umhverfismála á Íslandi. Verslanir Nettó hafi verið öflugar í að beina sjónum sínum að því sem betur megi fara undir formerkjum átaka á borð við Minni sóun og Allt-nýtt. „Við höfum dregið gríðarlega úr sorpmagni frá verslunum okkar undanfarin ár og stefnum á að draga úr því um 100 tonn í ár. Við stefnum á að halda þessu áfram og viljum endilega hvetja fleiri fyrirtæki til að leggja sitt á vogarskálarnar líka.“