Tími reiðhjólaþjófnaða fer í hönd
Hegningarlagabrotum fjölgaði verulega í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum á milli ára í mars. Alls komu 109 slík mál til kasta hennar í síðasta mánuði samanborið við 83 mál í mars 2009. Umferðarlagabrotum fækkaði hins vegar úr 368 í 136 á milli ára í mars.
Fjöldi fíkniefnabrota var sá sami eða þrettán.
Þetta kemur fram í samantekt ríkislögreglustjóra. Þar er komið sérstaklega komin inn á reiðhjólaþjófnaði sem færast í aukana með hækkandi sól.
Á árinu 2009 voru skráðir 787 reiðhjólaþjófnaðir á landinu. Flestar tilkynningar voru yfir sumarmánuðina eða 516 talsins. Brotunum fækkar yfir vetrarmánuðina og eru í lágmarki í desember. Á fyrstu þremur mánuðum þessa árs hafa 93 reiðhjólaþjófnaðir verið tilkynntir. Nú þegar líður að sumri er mikilvægt að huga að reiðhjólunum og gæta þess að skilja þau ekki eftir ólæst.