Tímamótasýning í Fræðasetrinu
Tímamótasýning verður opnuð um næstu helgi í Fræðasetrinu í Sandgerði. Um er að ræða sýningu um ævi og störf franska landkönnuðarins og vísindamannsins Jean-Baptiste Charcot, sem fórst ásamt 39 skipverjum með skipi sínu Pourqoui pas? í óveðri á Mýrum við Íslandsstrendur í september árið 1936. Opnun sýningarinnar er eitt af upphafsatriðum Franska Vorsins, franskrar menningarhátíðar á Íslandi.
Efri hæð Fræðasetursins hefur verið umbreytt af nokkrum færustu leikmyndasmiðum landsins og er nú engu líkara aen að maður sé staddur um borð í skipi Charcots á ferð um norðurslóðir. Charcot leiddi tvo leiðangra á Suðurskautslandið í upphafi 20. aldar, en á árunum milli stríða helgaði hann sig rannsóknum á norðurhveli jarðar. Hann fór um austurströnd Grænlands, Svalbarða og var tíður gestur á Íslandi og hélt hér fjölmarga fyrirlestra.
Sandgerðisbær og Háskóli Íslands eru helstu styrktaraðilar sýningarinnar sem verður afar glæsileg. Þar má sjá ýmsa gripi úr safni Charcots sem hafa verið fengnir að láni frá safni í París, en þetta er í fyrsta sinn sem þessir munir yfirgefa franska grund og að sögn aðstandenda sýningarinnar verður þetta einnig í það síðasta.
Auk þess verður sýningarsalur þar sem er varpað upp hreyfimyndum m.a. frá ferðum Charcots.
Undirbúningur fyrir sýninguna hefur staðið í um 2 ár og hafa fulltrúar að utan komið hingað margoft til að skoða aðstæður, meðal annars barnabarn fræðimannsins, frú Vallin-Charcot. Hún verður viðstödd opnunarathöfnina sunnudaginn 25. febrúar ásamt háskólarektor, franska sendiherranum á Íslandi og menntamálaráðherra.
Sýningin opnar fyrri almenning í kjölfar athafnarinnar eða kl. 16 og er gert ráð fyrir því að hún muni standa í Fræðasetrinu í 15-20 ár. Hún verður því væntanlega ein sterkasta stoð ferðamannaiðnaðarins á utanverðu Reykjanesi í langan tíma.
VF-myndir/Þorgils