Tímamót í þjónustu HSS: Biðtími styttist með hraðmóttöku
Ný þjónusta hefur verið tekin upp við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja frá og með 1. janúar 2008 en markmiðið með henni er að stytta biðtíma í móttöku á heilsugæslu stofnunarinnar.
Um er að ræða eins konar hraðmóttöku á dagvinnutíma þangað sem fólki er beint sem á við „skammtímavandamál“ að etja. Með því er átt við fólk sem er e.t.v. að kljást við flensur, sýkingar eða eitthvað þess háttar sem hægt er að greina fljótt og veita viðeigandi meðferð.Hraðmóttakan er opin á dagvinnutíma frá kl. 08-16 og hægt að panta tíma samdægurs.Tekið er á móti pöntunum í síma 422-0500.
Sigurjón Kristinsson, yfirlæknir á heilsugæslunni, sagði í samtali við Víkurfréttir að með þessu sé verið að breyta skipulaginu og auka
við þjónustu til að hægt sé að sinna fleiri sjúlkingum. Sigurjón
bætir því við að nýlega hafi verið gerð könnun á biðtíma á læknavaktinni og kom þar í ljós að meðalbiðtími á biðstofu til læknis á HSS er um 45 mínútur. „Núna er ástandið þannig að af heildarfjölda þeirra sem leita á heilsugæsluna koma 60% á vaktina en 40% á dagvinnutíma og þvi erum við að reyna að snúa við. Með þessu nýja fyrirkomulagi miðum við að því að sinna 28 sjúklingum aukalega á dag og 140 á viku. Þannig styttum við biðtíma eftir viðtali við lækna verulega.“
Sigríður Snæbjörnsdóttir, forstjóri HSS, sagði að með þessari bættu þjónustu væri vonast til að hægt væri að mæta þörfum skjólstæðinga enn betur og fyrr. Einnig benti hún á að óvíða væri styttri biðtími eftir bráðaþjónustu heldur en HSS biði upp á núna. Auðvitað væru þó undantekningar frá þessu, eðli málsins samkvæmt, því stærri slys og meiri veikindi fengju alltaf forgang.