Tímamót í samgöngumálum á Reykjanesi
Aukin ferðatíðni og hagstæð afsláttarkjör er meginstefið í nýjum samningum Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, Kynnisferða og SBK sem undirritaðir voru í morgun.
Frá og með 1. janúar fjölgar ferðum frá Reykjanesi til höfuðborgarinnar um 28 á viku, þar af 8 um helgar. Í boði verða afsláttarkjör sem koma til móts við þá sem mest nota þjónustu Reykjanes Express þar sem hægt er að finna fargjald all niðurundir 300 krónur fyrir einstaka ferð, að því er segir í tilkynningu frá samningsaðilum.
Frá því í ársbyrjun hefur verið unnið að því að SSS taki yfir einkaleyfi til almenningssamgangna á Reykjanesi. Nú liggur fyrir samningur milli Vegagerðarinnar og SSS um yfirtöku slíks einkaleyfis. SSS yfirtekur þannig rekstur eða semur við aðila um sérleyfisakstur á svæðinu. Þar má telja almenningssamgöngur milli byggðalaga innan og utan svæðis, akstur flugrútu, skólaakstur og akstur með fatlaða. Þetta hefur í för með sér mikla möguleika sveitarfélaganna á samnýtingu samgangna. Í því felst m.a. nýting skólaaksturs samhliða almennri áætlun, nýtingu á flugrútunni til fjölgunar ferða í áætlun frá Reykjanesi til höfuðborgarsvæðisins.
SSS ákvað að framlengja samning um sérleyfið við Kynnisferðir með þjónustusamningi til eins árs en Kynnisferðir eru í nánu samstarfi við SBK um framkvæmd samningsins.
Reykjanes Express verður eins og áður með tengingum frá Sandgerði, Garði, Grindavík og Vogum. Upphafsstaður og helstu viðkomustaðir eru eftir sem áður: SBK, Grænás, Vallarheiði, mislæg gatnamót við Tjarnarhverfi, Grindavíkurveg og Vogaafleggjara, Fjörukrána í Hafnarfirði, Aktu-taktu í Garðabæ, BSÍ og í morgunferðum við HR, Kennaraskólann, MR og HÍ.
Nánari upplýsingar um aflsláttarkjör og áætlun má finna á www.sbk.is og www.bsi.is
Efri mynd:
Myndatexti: Garðar K. Vilhjálmsson formaður Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS), Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri SSS og Einar Steinþórsson framkvæmdastjóri Kynnisferða skrifa undir samninginn.
Neðri mynd:
Ólafur Guðbergsson, framkvæmdastjóri SBK og Einar Steinþórsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða.