Tímamót í Helguvík: Fyrstu borgaralegu notin á olíuhöfninni
Þau tímamót urðu í gærkvöld að olíubirgðastöðin í Helguvík var í fyrsta skipti notuð í borgaralegum tilgangi eftir að Bandaríkjaher og NATO afhentu íslenska ríkinu stöðina til afnota.
Olíuflutningaskip á vegum Esso lagðist þar að bryggju en um borð voru 20 þúsund tonn af flugvélaeldsneyti sem fara munu upp á Keflavíkurflugvöll.
Olíufélagið ehf og Icelandair gerðu með sér í haust samning um kaup og sölu á eldsneyti á flugvélar Icelandair. Í stað þess að taka eldsneytið á land í Örfirisey og flytja það á bílum til Keflavíkur ætlar Olíufélagið framvegis að landa því í Helguvík.
Fyrir utan þá fjárhagslegu hagkvæmni sem fæst fram með því, þá minnka eldsneytisflutningar um Reykjanesbrautina til mikilla muna en þeir hafa verið mörgum áhyggjuefni. Á degi hverjum hafa 12-15 flutningabílar frá Olíufélaginu þurft að fara um Reykjanesbrautina með eldsneyti frá Örfirisey upp á Keflavíkurflugvöll, að sögn Guðjóns Auðunssonar, framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs Olíufélagsins.
Það að koma Helguvíkurstöðinni í borgaraleg not var nokkuð flókið ferli. NATO hafði umráðarétt yfir mannvirkjunum, sem það framseldi til utanríkisráðuneytisins. Eftir talsverða yfirlegu þeirra aðila sem komu að málinu varð niðurstaðan sú að Eldsneytisafgreiðslan og Eldsneytisbirgðastöðin á Keflavíkurflugvelli (EAK og EBK) yrði þeir aðilar sem semdu við ráðuneytið um rekstur birgðastöðvarinnar. Það var síðan nú í vikunni sem endanlega var gengið frá formlegum samningum þar að lútandi. Hafnarmannvirkin sjálf verða undir forsjá Reykjaneshafnar.
Mynd: Olíuflutningaskipið Futura leggst að bryggju í Helguvík í gærkvöld með 20 þúsund tonn af flugvélaeldsneyti innanborðs.
Þar með er Helguvíkurhöfn komin í borgaraleg not.
VF-mynd: Ellert Grétarsson.