Tímabundin töf á heimsendingum úr netverslun Nettó
Gríðarleg eftirspurn er eftir vörum úr netverslun Nettó og mega viðskiptavinir búast við tímabundnum töfum á afhendingu næstu daga.„Netverslunin hefur stækkað gríðarlega hjá okkur síðustu daga og eftirspurnin aldrei verið meiri. Það gæti verið einhver bið eftir vörum frá okkur, allt frá nokkurra klukkustunda töf yfir í sólarhringstöf,“ segir í tilkynningu frá Nettó.
Þar segir einnig: „Starfsfólk er að leggja sig fram um að koma vörum til viðskiptavina eins fljótt auðið er. Við erum að fjölga bílstjórum og þessi töf verður aðeins tímabundin. Í Danmörku er nú nokkurra daga bið eftir matvörum úr netverslunum þar en við erum sem betur fer ekki komin þangað. Við þökkum viðskiptavinum fyrir sýndan skilning en vörurnar munu skila sér heim á endanum.
„Við biðjum viðskiptavini líka að fara að fyrirmælum Almannavarna og Samtaka verslunar og þjónustu. Það er nóg til af vörum í landinum og við megum ekki láta skelfingu grípa um sig og hamstra matvörur þótt samkomubann sé yfirvofandi. Allar verslanir Samkaupa, um 60 talsins, verða áfram opnar eftir að samkomubann hefur verið sett á,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Nettó.