Tímabundin þörf á lausafé hjá Reykjaneshöfn
Rekstrartap Reykjaneshafnar árið 2020 var rúmar 120,5 milljónir króna. Hagnaður var af af rekstri en afskriftir mannvirkja og annarra eigna og fjármagnsliðir vega þyngst í rekstrartapinu.
Hafnarstjóri fór á síðasta fundi hafnarstjórnar yfir stöðuna í fjármálum hafnarinnar en heimsfaraldurinn COVID-19 hefur haft umtalsverð neikvæð áhrif á tekjur hafnarinnar undanfarið ár. Tímabundin þörf á lausafé er að skapast sem mun að öllum líkindum jafnast út er líður á rekstrarárið og þarf að gera ráðstafanir vegna þess.
„Stjórn Reykjaneshafnar samþykkir að óska eftir tímabundinni yfirdráttarheimild til 31. desember næstkomandi um allt að tuttugu milljónum króna hjá viðskiptabanka hafnarinnar og felur hafnarstjóra að fylgja málinu eftir,“ segir í gögnum fundarins.
Þá fór hafnarstjóri fór yfir þær fjárfestingar sem fyrirhugaðar eru á komandi mánuðum og árum í uppbyggingu í Njarðvíkurhöfn og þá fjárhagslegu þörf sem fylgir þeim framkvæmdum. Eftirfarandi var lagt fram: „Stjórn Reykjaneshafnar felur hafnarstjóra að koma með tillögur að og undirbúa hvernig fjármögnun verði háttað vegna fyrirhugaðra framkvæmda til skemmri og lengri tíma.“ Samþykkt samhljóða.
Á fundinum var ársreikningur Reykjaneshafnar einnig samþykktur samhljóða og honum vísað til samþykktar á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar.