Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Tilraun til fjandsamlegrar yfirtöku á Fiskmarkaði Suðurnesja mistókst
Föstudagur 27. desember 2002 kl. 15:19

Tilraun til fjandsamlegrar yfirtöku á Fiskmarkaði Suðurnesja mistókst

Síðustu daga hefur hópur Suðurnesjamanna komið í veg fyrir tilraun til svokallaðrar fjandsamlegrar yfirtöku Fiskmarkaðar Íslands á Fiskmarkaði Suðurnesja. Í tilkynningu sem Fiskmarkaður Íslands sendi Kauphöllinni í morgun segir að félagið hafi eignast 31.3% í Fiskmarkaði Suðurnesja og að kaupin hafi verið fjármögnuð með 50 milljón króna láni. Ragnar Kristjánsson framkvæmdastjóri Fiskmarkaðs Suðurnesja sagði í samtali við Víkurfréttir að hópi einstaklinga og fyrirtækja á Suðurnesjum hefði tekist að verja yfirtökuna og væri nú með um 62% eignarhlut í Fiskmarkaði Suðurnesja: „Fjandsamleg yfirtaka Fiskmarkaðar Íslands hefur ekki tekist og um sameiningu félaganna er ekki að ræða meðan þessir aðilar halda um stjórnvölinn. Sá hópur sem síðustu daga hefur staðið í því að verja félagið hefur ekki áhuga á sameiningu við Fiskmarkað Íslands,“ sagði Ragnar. Hann segir að ef yfirtakan hefði tekist þá væri gríðarlegir hagsmunir Suðurnesjamanna fyrir borð bornir: „Það segir sig sjálft að störf hefðu horfið og starfseminni hefði verið breytt töluvert. Íslandsmarkaður er hluti af okkar starfsemi, en markaðurinn veltir um 16 til 17 milljörðum sem fer í gegnum Sparisjóð Keflavíkur, en sú velta hefði hugsanlega getað horfið af svæðinu.“ Samkvæmt heimildum Víkurfrétta hafa forsvarsmenn Fiskmarkaðar Íslands gengið á hluthafa Fiskmarkaðar Suðurnesja síðustu daga og reynt að kaupa þeirra hlut, en einn þeirra Suðurnesjamanna sem seldi sinn hlut var Sigurjón Jónsson úr Sandgerði, en hann seldi 17% hlut. Ragnar segir að Suðurnesjahópurinn muni verja fyrirtækið áfram og byggja það upp á Suðurnesjum.

Tryggvi Óttarsson framkvæmdastjóri Fiskmarkaðar Íslands sagði í samtali við Víkurfréttir að með kaupum á bréfum í félaginu hafi þeir viljað auka hagræði beggja félaganna: „Við teljum fyrirtækið gott og vel staðsett. Við sáum hagræðingarmöguleika í frekara samstarfi fyrirtækjanna og við viljum auka hagræði beggja fyrirtækjannna. Við sjáum ekkert fjandsamlegt í því og ég myndi frekar segja að um vinsamlega innkomu væri að ræða af okkar hálfu.“ Aðspurður um það hvort til stæði að fara í sameiningarviðræður við Fiskmarkað Suðurnesja sagði Tryggvi: „Þær hugmyndir hafa verið uppi talsvert lengi og ekki bara í okkar röðum, heldur einnig hjá Fiskmarkaði Suðurnesja. Hlutabréfkaup okkar eru leikur í þeirri stöðu. Við útilokum ekki frekari kaup í félaginu, en þetta er ágætt í bili og eignarhluti okkar veitir okkur áhrif sem við munum nýta í þessu félagi,“ sagði Tryggvi í samtali við Víkurfréttir.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024