Tilraun til að opna neyðarútganga?
Tyrkneskur maður með finnskt ríkisfang var grunaður um að hafa reynt að opna neyðarútganga í flugvél Icelandair á leiðinni frá Stokkhólmi til Keflavíkur í gær. Bylgjan greindi frá þessu í dag. Lögreglan á Keflavíkurflugvelli tók hann til yfirheyrslu þegar í ljós kom að átt hafði verið við hurðirnar aftast í vélinni. Öryggið hafði verið slegið af en dyrnar voru samt kyrfilega læstar. Manninum var sleppt að loknum yfirheyrslum en hann dvelur hér í nokkra daga. Lögreglan telur ekki unnt að aðhafast frekar í málinu.