Tillögu um launalækkun vísað til bæjarráðs
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkti á fundi sínum í gær að lækka laun bæjarfulltrúa og nefndarmanna um 10%. Fyrir fundinum lá tillaga um 10% launalækkun starfsmanna bæjarins sem hafa yfir 400 þúsund króna mánaðarlaun. Henni var vísað til nánari skoðunar í bæjarráði.
Í tillögunni sem lögð var fram við síðari umræðu vegna fjárhagsáætlunar næsta árs, segir að engin skerðing verði á heildarlaunum þeirra bæjarstarfsmanna sem hafan undir 400 þúsund krónum í mánaðarlaun. Þessi ákvörðun verði endurskoðuð eftir 6 mánuði frá gildistöku.
„Ætla má að útsvarstekjur og aðrar tekjur bæjarins dragist saman. Til þess að mæta þessu er ljóst að grípa verður til aðgerða til að lækka rekstrarkostnaðinn en stærstur hluti hans er launakostnaður. Algjör samstaða ríkir um að verja þá sem lægst hafa launin og ekki verður gripið til hópuppsagna.
Framkvæmdastjórar Reykjanesbæjar fengu það hlutverk að benda á leiðir til að spara í launakostnaði án þess að það þurfi að koma til hópuppsagna starfsfólks.
Með tillögunum er möguleiki á að ná allt að 75 m.kr. sparnaði á árinu 2009,“ segir í greinargerð með tillögunni.