Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Tilkynntu brottför rúmri viku fyrir kosningar
Fimmtudagur 26. júní 2003 kl. 19:51

Tilkynntu brottför rúmri viku fyrir kosningar

Bandarísk stjórnvöld tilkynntu íslensku ríkisstjórninni, aðeins rúmri viku fyrir þingkosningarnar í vor, að búið væri að taka einhliða ákvörðun um að flytja bæði herþoturnar og björgunarþyrlurnar frá Keflavíkurflugvelli strax í byrjun júní. Það var með naumindum og meðal annars með tilstilli Robinsons lávarðar, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins að íslensku ríkisstjórninni tókst að fá Bandaríkjastjórn til að fresta þessari ákvörðun. Íslenska ríkisstjórnin fór fram á það í vetur við Bandaríkjastjórn að viðræðum sem fyrirhugaðar voru um bókun við varnarsamninginn yrði frestað fram yfir þingkosningarnar í vor. Tekið var vel í þessa málaleitan enda hafði Bandaríkjastjórn sjálf frestað þessum viðræðum lengi, fyrst vegna forsetaskipta og síðan hryðjuverkaárása.

Það kom því íslensku ríkisstjórninni algerlega í opna skjöldu þegar sendiherra Bandaríkjanna fór á fund Davíðs Oddssonar, forsætisráðherra, þann 2. maí síðastliðinn, aðeins átta dögum fyrir kosningar.

Á fundinum sem fram fór í stjórnarráðinu varpaði sendiherrann algerri sprengju. Hans hlutverk var að tilkynna Davíð að Bandaríkjastjórn væri þegar búin að ákveða að flytja herþoturnar á Keflavíkurflugvelli annað og það yrði gert eftir rúman mánuð, nánar tiltekið 4. júní.

Ákvörðunin og þessi ótrúlega skammi frestur kom alfarið frá bandaríska varnarmálaráðuneytinu og haukunum þar og ekkert mið var tekið af sjónarmiðum utanríkisráðuneytisins, sem þó hafði sterklega ráðlagt að málinu yrði frestað og tekið yrði tillit til pólitískra aðstæðna á Íslandi. Það er að kosningar væru yfirvofandi.

Eins og að líkum lætur greyp hálfgerð skelfing um sig í íslensku ríkisstjórninni við þessar fréttir. Leitað var eftir aðstoðar Robinsons lávarðar, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, sem hefur mikil ítök í Washington og fyrir hans tilstilli tókst að ná eyrum Bush Bandaríkjaforseta og Powell utanríkisráðherra.

Samkvæmt heimildum brást Bush hissa við enda virðist sem hann hafi ekki rennt í grun að þessi ákvörðun væri umdeild og að Íslendingar myndu taka þessu svona illa.

Það næsta sem gerist er að nokkrum dögum eftir fund Davíðs og sendiherrans og örskömmu fyrir kosningar er að Powell hringir í starfsbróðir sinn Halldór Ásgrímsson. Powell lofar Halldóri í þessu símtali að beita sér fyrir því að þessari ákvörðun verði frestað.

Fáum blandast þó hugur um að upprunalega ákvörðunin stendur. Það er ekki ætlun Bandaríkjastjórnar að draga þessa ákvörðun til baka. Herþoturnar og björgunarþyrlurnar verða fluttar frá Íslandi.

Í bréfinu sem Bush sendi Davíð í byrjun júní er reyndar ekki talað sérstaklega um útfærsluna heldur aðeins farið orðum um að endurskoða þurfi varnarsamninginn í ljósi breyttra aðstæðna. Þó er fullyrt að Bandaríkjastjórn hafi ákveðnum skyldum að gegna gagnvart Íslendingum.

Í svarbréfi Davíðs til Bush lýsir Davíð hins vegar furðu sinni á vinnubrögðum Bandaríkjastjórnar í upphafi málsins.

Fyrsti samningafundur íslenskra og bandarískra stjórnvalda fór fram hér í utanríkisráðuneytinu hér á mánudag. Mönnum ber saman um að, miðað við það sem undan er gegnið, hafi fundurinn verið ótrúlega vinsamlegur og þegar er rætt um annan samningafund í byrjun júlí.

Það sem skapaði þennan vinalega umræðugrundvöll er að Bandaríkjastjórn ákvað að koma til móts við kröfur Íslendinga, að því leiti að ekki er enn upp á borðinu dagsetning um það hvenær herþoturnar verða fluttar á brott. Afstaða Bandaríkjastjórnar virðist að öðru leiti óbreytt og það er stál í stál því bæði forsætis- og utanríkisráðherra Íslands hafa lýst því yfir að núverandi varnir séu algerar lágmarksvarnir. Annað hvort verði staðan óbreytt áfram eða Bandaríkjamenn geti haft sig á brott.

Það er reyndar mat margra að íslenska ríkisstjórnin sé búin að mála sig út í horn í þessu máli og sé í afar erfiðri samningsstöðu. Bandaríkjastjórn sé ekki það annt um aðstöðuna á Keflavíkurflugvelli að hún láti kúga sig í þessu máli og því sér erfitt að sjá hver útgönguleið ríkisstjórnarinnar getur orðið.

Heimildir herma að íslenskir ráðamenn séu að þreifa fyrir sér með það hvort Evrópuþjóðir, aðallega Bretar og Frakkar, vilji að einhverju leiti taka við vörnum Íslands en lítill árangur hefur orðið af þeim þreifingum. Enda er ólíklegt að nokkur þjóð geti tekið við þessum miklu skuldbindingum af Bandaríkjamönnum.

Stöð 2 greindi frá þessu í kvöld.

Ljósmynd: Hilmar Bragi Bárðarson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024