Tilkynnt um 10 slasaða í rúllustiga í flugstöðinni
– tveir fluttir á sjúkrahús með skurði. Hinir héldu ferðalaginu áfram.
Allt tiltækt sjúkralið frá Brunavörnum Suðurnesja var kallað út vegna slyss í Flugstöð Leifs Eiríkssonar nú áðan. Tilkynnt var um tíu slasaða ferðamenn í rúllustiga í brottfararsal flugstöðvarinnar.
Eldra fólk var á leið upp rúllustigann með allan sinn farangur í leit að innritunarborði þegar það féll aftur fyrir sig í stiganum. Áður en tókst að stöðva stigann höfðu tíu ferðamenn fallið um koll.
Flytja þurfti tvo á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þar sem gera þurfti að meiðslum og sauma skurði. Aðrir gátu haldið ferðalagi sínu áfram.
Meðfylgjandi myndir tók Hilmar Bragi í flugstöðinni nú áðan þegar viðbúnaðurinn var hvað mestur.