„Tilfinningin að bjarga mannslífi er mögnuð“
- segir lögreglumaðurinn Sigvaldi Arnar Lárusson sem nú leiðbeinir um skyndihjálp
Lögreglumaðurinn Sigvaldi Arnar Lárusson lauk nýverið leiðbeinandanámskeiði í skyndihjálp frá Rauða Krossi Íslands. Eftir að hann fékk réttindi sem leiðbeinandi í skyndihjálp hefur hann haldið nokkur námskeið en Sigvaldi stofnaði Skyndihjálparkennsluna þar sem einstaklingar og starfsmenn fyrirtækja geta fengið kennslu í skyndihjálp.
„Ástæðan fyrir því að ég skráði mig á þetta námskeið hjá Rauða krossinum er sú að ég hef bjargað mannslífi með því að kunna skyndihjálp. Tilfinningin að bjarga mannslífi er mögnuð og þess vegna vildi ég öðlast réttindi til að kenna skyndihjálp svo aðrir geti upplifað þessa tilfinningu komi til þess að þeir verði í sömu sporum og ég var í,“ segir Sigvaldi í samtali við Víkurfréttir.
„Í starfi mínu sem lögreglumaður sl. 18 ár hef ég oft þurft að beita skyndihjálp og hef því talsverða reynslu af þessum málum“.
Margar tegundir af námskeiðum eru í boði og einnig getur Sigvaldi sett saman námskeið eftir þörfum hvers og eins.
Hann hvetur fólk til að setja sig í samband hafir það áhuga á að kynna þér þetta frekar. Sigvaldi er með skyndihjálparnámskeiðin á Facebook undir skyndihjálparkennslan. Einnig er hægt að senda tölvupóst á [email protected] eða bara með því að slá á þráðinn í síma 854-0401.