Tilboða leitað í nýtt gervigras fyrir Reykjaneshöll
Bæjarfulltrúar A-listans í Reykjanesbæ gagnrýna að ekki hafi verið farið að tillögu þeirra fyrr á þessu ári um að ráðast í endurnýjun gervigrassins í Reykjaneshöllinni eftir að í ljós kom að svifryksmengun í húsinu var langt yfir heilsuverndarmörkum. Sem kunnugt er keyptu bæjaryfirvöld sérstaka ryksugu til að hreinsa grasið, auk þess sem ráðist var í viðmiklar aðrar hreinsunaraðgerðir á stokkum, bitum og pípum og endurnýjun loftsía í húsinu. Það virðist ekki hafa borið tilætlaðan árangur því Reykjaneshöllinni var í síðustu viku lokað tímabundið á meðan frekari hreinsun fer fram.
Samkvæmt tilkynningu frá Reykjanesbæ var höllinni lokað að frumkvæði framkvæmdarstjóra MÍT eftir að mælinga hafði verið óskað frá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja. Þær sýndu að svifrykið var langt yfir mörkum. Í tilkynningunni segir að vonir hafi staðið til að þessar aðgerðir fyrr á árinu dygðu á meðan leitað væri tilboða í nýtt gervigras.
Ólafur Thordersen, bæjarfulltrúi A-lista, spurði á síðasta bæjarstjórnarfundi hvort ekki hefði verið skynsamlegra að fara að tillögu A-listans í febrúar síðastliðnum um að ráðast í endurnýjun gervigrassins, sem þá var vitað að væri orðið úrelt. Sagðist hann engu að síður fagna því að nú væri leitað tilboða í nýtt gras, þrátt fyrir að það kæmi í hlut leigjanda, þ.e. Reykjanesbæjar, að greiða kostnaðinn en ekki leigusalans. Hins vegar hefði verið hægt að spara bæði tíma og peninga með því að framkvæma þetta í sumar.
Árni Sigfússon, bæjarstjóri, varð til svars fyrir D-listann, sem hann sagði vinna eftir þeirri hugmyndafræði að rannsaka fyrst og framkvæma svo. Fyrst hafi bæjaryfirvöld viljað ganga úr skugga um af hvaða völdum svifryksmengunin væri áður en frekari ákvarðanir yrðu teknar. Að vandlega athuguðu máli væri nú ljóst að sá tími væri kominn að skipta þyrfti um gervigras.
Árni minnti á að kaupin á ryksugunni hefði verið með því fororði að henni yrði skilað ef hún skilaði ekki þeim árangri sem til væri ætlast. Framleiðandi vélarinnar hefði fullyrt að þessi búnaður væri það sem þurfti og því hefði verið sjálfsagt að láta á það reyna.