Tilboð upp á 400 milljónir í björgun Guðrúnar Gísladóttur KE af hafsbotni við Noreg
Köfurum tókst í nótt að ná upp síldarnót Guðrúnar Gísladóttur KE sem strandaði við Lofoten fyrir rúmum hálfum mánuði. Enn er óvíst hvort reynt verður að ná skipinu upp en tilboð hefur borist um það upp á 400 miljónir króna. Aðstæður til köfunar og skoðunar á flakinu ættu að lagast við að nótin er ekki lengur að þvælast fyrir mönnum en hún skapaði hættu við köfun og margvísleg vandræði. Að sögn Ásbjörns H. Árnasonar, framkvæmdastjóra útgerðar skipsins, er nótin heilleg. Hins vegar virðist afar lítið vera hægt að fullyrða um skrokk skipsins. Kafarar hafa séð nokkuð miklar skemmdir sem urðu við strandið en lítið er hægt að fullyrða um hversu mikið hnjask kom á skipið þegar það lenti á botninum á 40 metra dýpi. Samstarf er milli útgerðarinnar og Mengunarvarna norska ríkisins um væntanlega aðgerðaáætlun til að draga úr mengunarhættu og samkvæmt upplýsingum framkvæmdastjórans er reynt að flýta því starfi. Gunnar Felixson, forstjóri Tryggingamiðstöðvarinnar, segir að nú sé verið að vega og meta hvort geti verið fjárhagslega hagkvæmt að ná skipinu upp. Þegar hefur komið tilboð um það upp á 400 miljónir króna og fleiri tilboð eru væntanleg. Ljóst er að viðgerð á skipinu mun kosta fleiri hundruð miljónir. Allur viðkvæmur og dýr tækjabúnaður er ónýtur, svo mikið er víst. Þá hafa einnig verið skoðaðir möguleikar á að selja skipið hæstbjóðanda þar sem það liggur á botninum.
Frá þessu er greint á vef Ríkisútvarpsins.
Frá þessu er greint á vef Ríkisútvarpsins.